140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

framlagning stjórnarfrumvarpa.

[14:17]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hvers á tómatsósan að gjalda? Ég ætla bara að segja um líkingu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, og einkum og sér í lagi í tilefni af orðum hv. þm. Atla Gíslasonar, að (Gripið fram í.) staðreyndin er sú að í þinginu er að störfum sérstök þingskapanefnd sem er að fjalla um þingsköpin, meðal annars í ljósi þeirra ábendinga og athugasemda sem komu fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og í skýrslu þingmannanefndar sem Atli Gíslason veitti forustu. Þegar er búið að gera ýmsar breytingar á þingsköpunum sem tóku mið af þeim ábendingum og enn er unnið að því. Síðast í morgun var þingskapanefndin að störfum, að fara yfir margvíslegar ábendingar um það sem betur má fara í þingsköpunum og þingstörfunum, meðal annars ábendingar frá starfsfólki þingsins. Síðan höfum við líka skipt með okkur verkum og erum, einstakir nefndarmenn, að fjalla um einstaka þætti, varðandi verkskipulag hjá nefndum þingsins, um aðbúnað þingmanna, (Forseti hringir.) ræðutíma og annað slíkt, þannig að allt er þetta í gangi og mun vonandi verða til bóta þegar það verður allt komið til framkvæmda.