140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég náði kannski ekki að svara nógu vel áðan spurningu hv. þingmanns um að færa fólk til í stöðum innan Stjórnarráðsins. Ég tel þetta mjög athyglisverða hugmynd og mér hefur ekki dottið hún í hug. Þetta gæti verið áhugavert líka fyrir starfsfólkið, að skipta um umhverfi, fá meiri reynslu, meiri þekkingu og koma að öðrum sviðum.

Ég vil hins vegar líka benda á, og hv. þingmaður tekur undir það, að menn hafa oft og tíðum leyft sér að tala í neikvæðum tóni um embættismennina. Það hentar stundum til að slá einhverjar pólitískar keilur en það er mjög ósanngjarnt og ómaklegt.

Ég sé það líka í störfum mínum á Alþingi að fullt af fólki sem vinnur í ráðuneytunum vinnur mjög langa vinnudaga, það vinnur helgarnar þegar álag er í kringum fjárlögin og þetta sem maður þekkir. Þá velti ég líka fyrir mér framkomunni við starfsfólk í ráðuneytunum. Ef við setjum það í þetta samhengi sem við erum að ræða núna, að fara að breyta Stjórnarráðinu þegar hálft ár er til kosninga, færa til fólk og segja upp og gera alls konar hundakúnstir sem síðan verður hugsanlega breytt aftur, spyr maður: Í hvaða stöðu er starfsfólkið í ráðuneytunum? Auðvitað veit það ekkert hvað er að gerast og það segir sig alveg sjálft að fólki sem er í þeim aðstæðum líður ekki vel. Það er ekki vitað hverjir munu halda starfinu og hverjir munu hugsanlega missa það þannig að andrúmsloftið er mjög neikvætt. Það fólk sem vinnur í ráðuneytunum og hvar sem er reyndar á ekki skilið slíka framkomu. Það væri nær að búa til Stjórnarráð í einhverri heildarmynd og þróa það þá eins og við höfum verið að ræða hér, að ráða inn í Stjórnarráðið og reyna að fá (Forseti hringir.) það til að virka með það markmið (Forseti hringir.) að það sé sem skipulegast og best og þjóni tilgangi sínum.