140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:44]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil minna á að þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin voru í ríkisstjórn og grautuðust í ráðuneytunum og sameinuðu meðal annars sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í eitt ráðuneyti — það var mjög illa unnið, mjög ómarkvisst og illa undirbúið — lagðist allur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gegn því, að mig minnir, og formaður okkar talaði mjög ákveðið gegn því, það mundi veikja stjórnsýsluna og það ætti heldur ekki að vinna að slíkum stjórnsýslubreytingum í mikilli ósátt, bæði innan þings og við viðkomandi atvinnugreinar.

Þó að það sé kannski svolítið sérstakt að minnast á það, þá þekkjum við það báðir úr okkar sveitum að gamli Alþýðuflokkurinn þótti ekkert sérstaklega vinveittur íslenskum landbúnaði og þannig er það kannski enn. Og þegar við erum að berjast við að halda uppi öflugum vinsældum og trausti ríkisstjórnarinnar um allt land, er það mat þingmannsins að þetta sé það besta sem við getum gert til að auka traust íslenskra bænda til ríkisstjórnarinnar sem er einmitt undir forustu gamals liðsmanns Alþýðuflokksins?