140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:45]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Já, það þekkja það allir sem eldri eru en tvævetur að Alþýðuflokkurinn hefur aldrei verið hliðhollur landbúnaði og byggð í sveitum landsins. Hæstv. forsætisráðherra hefur einmitt ítrekað sýnt með málum sínum það eðli Alþýðuflokksins að berjast gegn landbúnaðinum.

Það sem ég vil hins vegar ítreka að vekur furðu er hvers vegna sveitadrengurinn frá Gunnarsstöðum er genginn fyrir björg með Alþýðuflokknum í því að veikja landbúnaðinn eins og er verið að gera í þessu máli. (Utanrrh.: Aldrei staðið sterkari.) Hæstv. utanríkisráðherra, alþýðuflokksmaðurinn, (Gripið fram í: Alþýðubandalagsmaðurinn.) fjallar um það, grípur hér fram í, vegna þess að hann veit að allir aðilar innan sjávarútvegs og landbúnaðar hafa ályktað í þá veru að verið sé að veikja grunnatvinnugreinarnar. Það er auðvitað markmið tillögunnar (Forseti hringir.) eins og hæstv. utanríkisráðherra veit sjálfur.