140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:31]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs voru á móti öllum breytingum á Stjórnarráðinu haustið 2007 (Gripið fram í.) og greiddu allir sem einn atkvæði gegn því að þær breytingar yrðu gerðar. Síðan hafa liðið nokkur ár, síðan hefur verið gefin út rannsóknarskýrsla, síðan hefur þingmannanefnd Alþingis komist að þeirri niðurstöðu að bæta þurfi vinnubrögð á þinginu og menn hafa talað um að nauðsynlegt sé að meira samstarf sé milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Menn í ríkisstjórninni hafa einnig talað um það en koma hér fram með sjötta málið á þessu kjörtímabili um breytingar á Stjórnarráðinu þar sem ekkert samstarf hefur verið haft við stjórnarandstöðuna, ekki neitt. Nánast allur þingflokkur Vinstri grænna ætlar að styðja það — maður hlýtur að draga þá ályktun.

Þá spyr maður: Hverjir hafa lært af þeim atburðum sem hér urðu, í hvaða flokki eru þeir? Það eru að minnsta kosti ekki þeir sem eru í forsvari fyrir annan stjórnarflokkinn, Vinstri hreyfinguna – grænt framboð.