140. löggjafarþing — 84. fundur,  17. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þetta mál kemur í framhaldi af þeirri lagasetningu sem sett var um Stjórnarráðið fyrir nokkru síðan en þá fór einmitt fram mjög mikil umræða um það hversu mikið alræðisvald forsætisráðherra fengi með því frumvarpi. Það var reyndar mildað dálítið á þann hátt að leggja ætti fram þingsályktunartillögu áður en hægt væri að breyta skipan ráðuneyta, og slíka tillögu ræðum við hér.

Það hefur komið fram í umræðunni í dag, sem hefur verið alveg ágæt þó að stjórnarliðar hefðu getað tekið dálítið meiri þátt í henni til að við vissum hver hugur þeirra væri, að í þessa þingsályktunartillögu vantar kostnaðarmat vegna þess að breyting á Stjórnarráði kostar alltaf eitthvað. Það mætti líka fylgja mat á því hvað sparast, og mat og kortlagning á breytingunni þannig að menn viti hvar þeir standi, opinberir starfsmenn sem vinna í stofnununum viti hvaða ráðherra verður yfir þeim þegar breytingarnar hafa átt sér stað. Svo þyrftu líka að koma fram í þingsályktunartillögunni þær nauðsynlegu lagabreytingar sem þarf að fara í, vegna þess að menn breyta ekki Stjórnarráðinu sisvona, það þarf að breyta lögum um viðkomandi greinar til að skerpa á þeim markmiðum sem menn ætla að ná með breytingum á Stjórnarráðinu.

Ég tel, herra forseti, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem fær málið til skoðunar ætti að flytja breytingartillögu við frumvarpið sjálft, og ég mun fyrir mitt leyti stuðla að því að hún fái afbrigði á Alþingi þó að hún komi seint fram, þar sem þessi atriði verði sett inn í frumvarpið um Stjórnarráðið, þ.e. að í þeirri þingsályktunartillögu sem lögð er fyrir Alþingi þurfi að koma kostnaðarmat, mat á því hver verði hagnaðurinn af breytingunum, kortlagning á breytingunum og nauðsynlegar lagasetningar.

Þetta var um formið. Svo reynir maður að ráða í það sem er svo óljóst í þessari litlu og mögru þingsályktunartillögu. Maður rekur fyrst augun í að Fjármálaeftirlitið á að fara til atvinnuvegaráðuneytisins en Seðlabankinn í fjármálaráðuneytið. Þetta sér maður strax og þá veit maður það að minnsta kosti. Ég tel að þetta sé mjög slæmt eins og hér hefur verið bent á. Það var einmitt sambandsleysið á milli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sem átti þátt í hruninu á sínum tíma, menn töluðust ekki við. Ef þessar tvær eftirlitsstofnanir með efnahagsmálum eru hvor í sínu ráðuneytinu er ekki von á góðu.

Þegar maður fer í gegnum skýrsluna sjálfa vil ég, af því að ég hef svo stuttan tíma, helst fara bara beint í að ræða um auðlindaráðuneytið. Þó að ég mundi gjarnan vilja fá skýringu á mjög mörgu öðru hér frá hæstv. forsætisráðherra, sem flytur málið, þá ætla ég að fara beint í auðlindaráðuneytið því að það er nýtt. Þar munu menn eflaust vilja fjalla um sem flest mál, það er venjan.

Auðlind á Íslandi er náttúrlega sjávarútvegurinn þannig að ég geri ráð fyrir því að auðlindaráðuneytið muni vilja hafa með Hafrannsóknastofnun að segja og jafnvel Fiskistofu. Það mun vilja halda utan um þá auðlind sem sjávarútvegurinn er. Þá kemur að Landsvirkjun, sem er kannski með stærstu auðlind landsins, orkuna, og Rarik o.s.frv., auðlindaráðuneytið mun væntanlega vilja hafa eitthvað með þau fyrirtæki að gera. Þá er það spurningin um Fjarskiptastofnun varðandi tíðnisvið sem ég tel að verði ein mesta auðlind framtíðarinnar, orkumál sem heyra undir það og þar koma inn mengunarskattar og slíkt. Svo er það skógræktin og sitthvað fleira sem heyrir núna undir landbúnaðarráðuneytið. Ég tel að auðlindaráðuneytið muni vilja hafa um þessi mál að segja en ég óttast hvað það sem hér er lagt fram er í lausu lofti, þetta er algjörlega óskrifað blað.