140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Út af síðustu spurningunni vil ég svara því til að engin ákvörðun hefur verið tekin um það. Ég benti bara á greiningarvinnu Jóns Sigurðssonar um fjármálamarkaðinn þar sem þetta er ekki lagt til. Engin afstaða hefur verið tekin til þess í Stjórnarráðinu hvort sameina eigi þessar stofnanir eða ekki. Ýmislegt mælir með því og ýmislegt á móti en ákvörðun liggur ekki fyrir.

Varðandi stjórnarskrána er sagt í 15. gr., eins og við margfórum í gegnum á síðasta þingi, að það er forseti sem ákveður tölu ráðherra og skiptir störfum með þeim. Það er alls ekki þörf á því að þetta mál fari fyrir þingið, heldur er kallað eftir því að fyrirkomulag þessara mála verði með svipuðum hætti og er í Evrópulöndum eins og ég fór yfir.

Varðandi efnahagsráðuneytið var ráðist í stofnun þess fljótlega eftir að þessi ríkisstjórn var mynduð. Menn fóru þar eftir því sem var talað um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að sameina frekar ráðuneyti (Forseti hringir.) og stækka þau. Það er ekki verið að bregða neitt út frá því (Forseti hringir.) þó að hér sé verið að flytja til verkefni. Það er enn þá verið að sameina og stækka ráðuneytin.