140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:38]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson og reyndar fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa undanfarið farið mikinn um að með þessari þingsályktunartillögu sé verið að ganga þvert á faglega niðurstöðu og faglega vinnu. Er það þá réttur skilningur að að mati hv. þingmanns sé hin faglega niðurstaða sú að ef virkjanir í Þjórsá og virkjanir í Skrokköldu og Hágöngum væru ekki settar í biðflokk væri niðurstaðan fagleg, sem sjálfstæðismönnum er svo mjög annt um? Er þetta réttur skilningur?

Hv. þingmaður talar líka um pólitísk afskipti þegar skipt var um einn fulltrúa í verkefnisstjórn. Þetta er mjög athyglisvert. Eru það þá pólitísk afskipti af þessu ferli öllu þegar verkefnisstjórn er yfir höfuð skipuð? Hún var jú skipuð í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, ekki satt? Því ættu sjálfstæðismenn að gangast við ýmsu sem hér hefur farið fram. Hvað meinar hv. þingmaður nákvæmlega með þessu?

Hv. þingmenn gera síðan lítið úr gildi umsagnarferlis sem hæstv. ráðherrum ber lögum samkvæmt skylda til að fara í. Á það bara að vera einhver sýndarmennska? Eða á að taka alvarlega og taka til greina þær umsagnir sem berast lögum samkvæmt um þá virkjunarkosti sem klárlega þarfnast meiri upplýsinga um? Er það ekki rétt og lögmætt og einmitt faglegt að gera það þannig? (Forseti hringir.)

Hér er talað eins og um stórfelld skemmdarverk sé að ræða, að kostir séu settir í bið um tíma. Það er hreinlega (Forseti hringir.) óskiljanlegur málflutningur.