140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[13:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það vakti athygli mína sem hv. þingmaður nefndi hér um samstarf Norðurlandanna á sviði atvinnumála. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ekki eru mörg mál á því sviði á þeim lista sem hv. þingmenn hafa séð um þær stjórnsýsluhindranir sem sérstaklega eru nefndar til.

Mig langar að inna hv. þingmann eftir áliti hans á því hvernig áherslan í norrænu samstarfi hefur einmitt breyst á undanförnum árum, farið í svokölluð hnattvæðingarverkefni sem lúta að því að markaðssetja Norðurlöndin sem eina heild. Þetta hafa verið ýmis verkefni, bæði á sviði rannsókna og nýsköpunar, sem hafa lotið að atvinnuuppbyggingu og viðskiptahagsmunum Norðurlanda um heim allan. Hvert er mat hans er á þessum verkefnum? Hvernig hafa þau tekist til? Hvaða sóknarfæri sér hann á þessu sviði út frá breyttu fyrirkomulagi fjárveitinga núna innan norrænu fjárlaganna?

Að lokum: Telur hann að íslenskt atvinnulíf sé nægilega meðvitað um þá hagsmuni sem geta falist í því að Norðurlöndin nýti sér samtakamáttinn í því að markaðssetja sig sem heild og telur hann að íslenskt atvinnulíf hafi verið meðvitað um þetta eða vilji nýta sér þau tækifæri? Er ástæða til að taka þessi mál til umræðu á þeim vettvangi líka?