140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að sá bragur er á þessu máli að fyrst og fremst sé lögð áhersla á að vernda en ekki nýta. Það er skortur á því jafnvægi, sem ég og hv. þingmaður erum sammála um að þurfi að vera til staðar, sem vekur athygli.

Varðandi jarðvarmann annars vegar og vatnsaflið hins vegar er mjög mikilvægt að hafa í huga hve jarðvarmavirkjanir eru miklu áhættusamari en vatnsaflsvirkjanir. Bara við rannsóknir á jarðvarmasvæðum geta menn tapað hundruðum milljóna í rannsóknarvinnunni. Eins og gerðist til dæmis í Kröflu fyrir ekkert löngu þar sem menn voru nánast komnir niður í kviku og voru við það að stórskemma um það bil 100 millj. kr. bor. Það einstaka dæmi sýnir hversu miklu áhættusamari allar virkjanir á jarðhitasvæðum eru hvað fjárfestingar snertir. Af þeirri ástæðu verður maður að staldra við það hversu mjög er gengið á vatnsaflsvirkjunarkostina. Þar höfum við sem sagt Þjórsá, gullnámu okkar Íslendinga, sem hefur verið að mala gull fyrir okkur í gegnum tíðina og á enn mikið inni án þess að um of sé gengið á hlut náttúrunnar að mínu áliti. Það varð líka meginniðurstaða faghópanna en er ekki niðurstaða ráðherranna. Það er einfaldlega þannig. Þannig er það mál. Það bíður að sjálfsögðu nefndarinnar sem fær málið til skoðunar að fara frekar ofan í saumana á öllu þessu.

Ég ætla ekkert að gera lítið úr þeim umsögnum sem hafa borist og ég vil láta það koma fram í lokin að við höfum fengið í hendur gríðarlega mikilvægar upplýsingar og mikilvæga vinnu til að halda áfram að skoða málið.