140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

mannréttindabrot í Kína.

[13:53]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmaður hafi skilning á því að ekki er hægt að ræða ítarlega hvað fram fer á lokuðum fundi eins og þessum þar sem ýmis mál eru rædd. Ég get fullvissað hv. þingmann um að áherslur Íslands í mannréttindamálum komust þar mjög vel til skila vegna þess að drjúgum hluta af þessum fundi var varið í að ræða þau brýnu mál sem mannréttindamál eru. Það hefur komið fram að ég tók upp dauðarefsingar á þessum fundi og get ekki farið ítarlega út í það. Á þessum fundi tók ég líka upp mannréttindamál sem væri verið að ræða á Alþingi þannig að ég held að það hafi komist mjög vel til skila sem ég tel rétt og nauðsynlegt að koma á framfæri fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Ég ræddi það sem við leggjum áherslu á í mannréttindamálum. Ég lagði áherslu á það sem ég vildi sjá að yrði breytt í mannréttindamálum í Kína þannig að ég tel að ég hafi komið því mjög vel til skila varðandi þau mannréttindabrot sem þar viðgangast.

Dauðarefsingarnar voru að sjálfsögðu nefndar, farið yfir alþjóðasamninga sem gilda um mannréttindamál og hvatt til þess að forsætisráðherra Kína beitti sér fyrir því að þessum dauðarefsingum yrði hætt.