140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[17:37]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef fyrir fram verið andvígur því að ráðast í virkjanir í neðri hluta Þjórsár, og þá nefni ég allar þessar virkjanir. En ég er eins og aðrir hv. þingmenn reiðubúinn til að hlusta á rök í málinu og taka tillit til þess sem fram kemur. Nú er verið að óska eftir viðbótartíma til að fara yfir þau áhrif sem virkjanirnar hafa á fiskgengd í ánni og fleiri rök koma til.

Þarna er verið að búa til miðlunarlón í byggð. Rök þeirra sem hafa til dæmis haldið Hagavatnsvirkjun fram eru þau að með henni mundi sandfok á svæðinu verða heft. Nú er verið að búa til hættuna á því að slíkt hið sama gerist í þeim miðlunarlónum sem til verða í Hvamms- og Holtavirkjun þannig að auðvitað koma fleiri þættir til greina.

Ef ég ætti að raða þessum kostum upp á einhvern hátt vildi ég bara ítreka að ég hef alla tíð verið andvígur virkjunum í Urriðafossi. Mér finnst það ekki koma til greina út frá þeim rökum sem ég nefndi, ég tími einfaldlega ekki að fórna því svæði og þeirri fegurð sem það felur í sér. Ég held að það sé miklu verðmætara í verndarnýtingu en í virkjananýtingu. Hinir tveir kostirnir eru þannig að ég er fyrir fram frekar skeptískur á þá en er tilbúinn til að skoða þau gögn sem fram koma og hef í hyggju að gera það.