140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég held að við séum alveg sammála um að skynsamlegra sé að skoða aðra leiðir, hvort sem það eru sjávarfallavirkjanir eða átak í því að spara rafmagn.

Fyrir mjög stuttu beitti iðnaðarráðuneytið sér fyrir því að fara í svona sparnaðarátak og það sveitarfélag sem ég kem frá tók einmitt þátt í því. Þá vil ég líka nefna að nú liggur fyrir þingsályktunartillaga eða frumvarp til laga um breytingar gagnvart varmadælum þar sem er mjög há skattlagning, bæði að fella niður virðisaukaskattinn af því og hins vegar að breyta tollalögunum sem mundi skapa fullt af möguleikum til að fara í svona sparnaðarátak sem við gætum þá nýtt með þeim hætti. En það stendur okkur hins vegar fyrir þrifum þessi kostnaður og skattlagning. Málið hefur lengi verið í efnahags- og skattanefnd og hefur staðið til að afgreiða það, það eru miklir möguleikar í varmadælunum, en það hefur hins vegar ekki verið gert. Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sama sinnis og ég um að skynsamlegt væri að gera það.

Ég vil nota síðustu sekúndurnar til að spyrja hv. þingmenn um meðferð málsins. Nú átta ég mig ekki alveg á því, ég bara viðurkenni það, hvaða áhrif það hefur á það sem við erum að vinna með. Það kom fram í andsvörum áðan, og ég kom inn á það í seinni ræðu minni, að við teldum mikilvægt að ná eins faglegum og góðum vinnubrögðum og hægt væri. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vanda meðferð málsins og kalla þá frekar eftir því að vera ekki að keyra þetta í gegn á þessum tíma. Ég vil frekar taka þetta fyrir í byrjun haustsins og vinna áætlunina með umhverfis- og samgöngunefnd jafnhliða atvinnuveganefndinni.