140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

málefni Farice.

[15:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er samfylkingarblekking að það hafi verið nauðsynlegt að gera þetta því að eins (Gripið fram í.) og fram hefur komið í ræðum þingmanna var Danice ekki eini kosturinn til að tengja okkur við umheiminn. Hér voru aðrir möguleikar. Það varð hins vegar þannig að Farice fór í einkaframkvæmd með einkaaðilum og lagði Danice sæstrenginn sem nú er kominn í fang ríkisins með því að sameina þetta í eitt félag. Nú heitir það að það séu almannahagsmunir Íslendinga að ríkið sé komið með þetta í fangið. Þetta er fullkomlega óeðlilegt vegna þess að nú nema verðtryggðar skuldir með ríkisábyrgð 7 milljörðum kr. en heildarskuldir félagsins eru um 9,3 milljarðar kr.

Það skal og á það bent að lífeyrissjóðirnir eiga hlutafé þarna inni þannig að það var búið að blanda lífeyrissjóðunum inn í þessa einkaframkvæmd á sínum tíma. Á hvað minnir þetta okkur? Jú, t.d. þá kröfu að lífeyrissjóðirnir komi að byggingu Landspítalans. Þarna erum við með fyrir framan okkur akkúrat dæmi um einkaframkvæmd sem misheppnaðist vegna þess að tapið var ríkisvætt og þegar hlutirnir gengu ekki upp mátti ríkið hirða restirnar og skuldirnar.

Það kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra að ekki væri verið að virkja ríkisábyrgð með þessari 350 millj. kr. greiðslu inn í fyrirtækið nú. Það er víst verið að virkja ríkisábyrgðina vegna þess að ríkið er að koma þessu fyrirtæki til hjálpar með peningagreiðslum. Það verður svo næstu fjögur árin því að það er búið að búa til hinn svokallaða þjónustusamning við fyrirtækið. EES bannar nefnilega frekari ríkisaðstoð við fyrirtækið.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra í lokin: Óttast hæstv. fjármálaráðherra það ekki (Forseti hringir.) að ríkið sitji uppi með þennan sæstreng sem hefur verðlagt sig út af markaði út frá þjónustu þegar nýr strengur kemur til landsins eins og ég fór yfir (Forseti hringir.) áðan? Hingað getur komið strengur sem hefur verið kallaður Emerald Network.