140. löggjafarþing — 88. fundur,  25. apr. 2012.

lögreglulög.

739. mál
[16:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Auðvitað er hér bara verið að mæla fyrir málinu, það á eftir að fara til nefndar og fá umsagnir, þannig að maður getur í sjálfu sér ekki fjallað efnislega mjög djúpt um málið, að minnsta kosti ekki svona fyrst, heldur bara að leita frekari skýringa á því sem maður kallar eftir. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir að snúið hafi verið af fyrri braut til að ná breiðari samstöðu. Eins og hæstv. ráðherra segir eru kannski ekki allir sáttir, án þess að ég ætli að taka afstöðu til málsins, en að sjálfsögðu verð ég að kynna mér það betur, sjá umsagnir og hvernig það fer í meðförum þingsins.

Ég vil líka hvetja hæstv. ráðherra til að gera þetta, eins og það að hafa snúið af þeirri braut að styrkja ríkislögreglustjórann, á fleiri stöðum. Það á að styðja frekar við embættin úti á landi og vera ekki alltaf að færa verkefnin frá embættum á landsbyggðinni til alræðisins á suðvesturhorninu. Því að svo þegar búið er að gera það er alltaf sagt: Jú, það er orðið svo lítið umleikis í þessu embætti að hið eðlilega og sjálfsagða og rétta er að leggja það niður. Þetta, að styrkja embætti og stofnanir úti á landi, mætti auðvitað gera í fleiri tilvikum. Ég vil nefna til dæmis Vegagerðina í því sambandi. Við eigum fullt af húsnæði hjá Vegagerðinni sem er lítið notað en samt er alltaf verið að tala um að kaupa þurfi stærri höll fyrir Vegagerðina í Reykjavík. Það er mjög mikilvægt að styðja embættin á landsbyggðinni og styrkja þau, eins og náttúrlega alls staðar annars staðar.

Seinni spurninguna til hæstv. ráðherra, sem hann náði ekki að svara í stuttu andsvari, vil ég ítreka, en hún snertir það sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um að ekki hafi legið fyrir útfærðar tillögur um hvað þessar breytingar þýði í raun fyrir rekstur og sparnað embættanna. Því ítreka ég spurninguna til hæstv. ráðherra: Munu þau gögn ekki örugglega koma fram áður en meðferð málsins lýkur í þinginu?