140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu gott að halda þessum staðreyndum til haga og ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir að koma fram með sína afstöðu til þeirrar umræðu sem skapast hefur í kjölfar dóms landsdóms.

Það mikilvægasta af öllu í dag og á næstu vikum og mánuðum fyrir íslenska þjóð er að við sem störfum á þinginu hættum að velta okkur upp úr fortíðinni, hættum að reyna að hefja sjálf okkur upp á mistökum annarra eða með því að þykjast hafa átt hugmyndina að því að einhver einn ákæruliður hafi verið merkilegri en annar eða eitthvað slíkt. Við þurfum að fara að einbeita okkur að því sem skiptir virkilega máli sem er að fjalla um það hvernig við ætlum að leysa skuldavanda heimilanna. Mikið hefur verið talað um það í þessum sal. Nú hefur verið boðað að einhverjar lausnir komi fram fyrir vorið. Fresturinn til að leggja fram þingmál sem á að afgreiða í vor er liðinn og þess vegna liggur á að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir komi fram með þau mál sem þeir ætla sér að koma fram með í þessum málaflokki líkt og sumir hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa boðað að eigi að gera. Við skulum einbeita okkur að þessu verkefni, við skulum tala um hvernig við ætlum að ná tökum á ríkisfjármálunum vegna þess að það er það brýnasta fyrir íslenska þjóð til framtíðar, að við náum okkur upp úr því skuldafeni sem þjóðin er komin í.