140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

748. mál
[14:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Ég vil byrja á að lýsa vonbrigðum mínum með að hæstv. fjármálaráðherra getur ekki verið hér, vegna þess að í ræðu minni mun ég að mestu leyti fjalla um það sem snýr að þeirri breytingu sem á að verða við fjárhagslega endurskipulagningu, hvernig staðið er að fjárveitingum til Ríkisútvarpsins. Ég er afskaplega vonsvikinn með þá leið sem þar er farin.

Það væri líka áhugavert fyrir hæstv. forsætisráðherra, sem er nú þessi verkstjóri með allt þetta verkstjórnarvit, að vera við þessa umræðu, vegna þess að í frumvarpinu koma fram tvö atriði sem eru á svig við stefnu stjórnvalda. Það væri kannski ágætt fyrir hæstv. forsætisráðherra að fara yfir þetta og samræma það hvernig þetta er gert.

En ég er líka hugsi eftir þá umræðu sem átt hefur sér stað í dag, sem hefur að mínu mati verið lágstemmd og málefnaleg af allra hálfu. Maður spyr: Hver er þörfin fyrir Ríkisútvarpið í þeirri mynd sem það er? Eins og komið hefur fram eru skilgreiningar á hlutverki Ríkisútvarpsins á þann veg að það á að gera nánast allt. Þær umræður sem áttu sér stað hér áðan, sem einstaka hv. þingmenn eru hugsi yfir, um hugsanlegt aðgengi stjórnmálaflokka eða stjórnmálaafla að viðkomandi fjölmiðli, þá er það þannig að ef einhver er ekki sáttur við hvernig þetta er gert hefur hann ekkert val um að greiða ekki gjaldið. Ef maður væri hins vegar ósáttur við umfjöllun um eitthvert mál, hvar svo sem maður stæði í pólitík, hvort heldur sem Stöð 2 ætti í hlut eða ÍNN, gæti maður einfaldlega sleppt því að greiða gjaldið. Það er nú reyndar ekki í tilfelli ÍNN, en til að mynda á Stöð 2 geta mann bara sagt upp áskrift að stöðinni, það væru þá viðbrögð viðkomandi einstaklings gagnvart því. Það er hins vegar ekki hægt með Ríkissjónvarpið, menn verða að borga gjaldið hvort sem þeim líkar betur eða verr eða hvort sem þeir hafa yfir höfuð áhuga á að horfa á þá dagskrá sem þar er eða ekki. Það er kannski umhugsunarefni.

Ég held líka að það væri hollt fyrir hv. nefnd, og í raun fyrir alla, að fara aðeins yfir það sem snýr að innlendri dagskrárgerð. Einhvern veginn blasir það við manni, án þess að ég sé með neinar fullyrðingar í þá veru, að hinir einkareknu fjölmiðlar gefi Ríkisútvarpinu ekkert eftir þar. Það væri áhugavert að skoða það örlítið.

Ég vil líka gera að umtalsefni vonbrigði mín með þá breytingu sem á að gera með því að færa gjaldið, þ.e. nefskattinn, beint til Ríkisútvarpsins, kosti þess og galla miðað við það fyrirkomulag sem er í dag, sem sé að vera á föstum fjárlögum frá Alþingi. Helstu rökin fyrir því eru þau að þá sé Ríkisútvarpið sjálfstæðara í störfum sínum.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég er ekki algjörlega sammála því, það er hægt að hafa það með ýmsum hætti. Ef nefskatturinn rennur beint til Ríkisútvarpsins, fyrir utan alla aðra ágalla — og ég ætla að staldra aðeins við það til að byrja með að það er í höndum Alþingis að ákveða hver nefskatturinn er. Þannig að það er í raun Alþingi sem ákveður hver fjárframlögin verða til Ríkisútvarpsins, fyrir utan alla aðra ókosti sem því fylgja að mínu mati og eru í raun í andstöðu við það sem verið er að reyna að vinna hér á þingi.

Mig langar að rifja það aðeins upp, af því að það gleymist oft í fagurgalanum eins og stundum er sagt, þá kemur nú kannski fyrst í hugann þessi skýrsla þingmannanefndarinnar eða þingsályktunartillagan um breytt vinnubrögð sem hefur nú aldeilis ekki gengið eftir, en var samþykkt 63:0. Hér voru fluttar margar innblásnar og fallegar ræður um að nú skyldu sko verða breytingar. Ein af þeim breytingum sem orðið hefur í störfum þingsins eftir að ég kom hingað inn er sú að náðst hefur þverpólitísk samstaða í hv. fjárlaganefnd um að fara að vinna fjárlögin með öðrum hætti en gert hefur verið, vinna að eftirlitshlutverki nefndarinnar og fleira mætti telja. Í því tilfelli var það við yfirferð á ríkisreikningi fyrir árið 2009 að hv. fjárlaganefnd gaf út skýrslu sem byggðist töluvert á þeim athugasemdum sem höfðu komið fram hjá Ríkisendurskoðun árum og jafnvel áratugum saman. Að þeirri vinnu stóð öll hv. fjárlaganefnd, alveg þvert á flokka. Það var enginn undanskilinn í því. Allir hv. þingmenn í fjárlaganefnd stóðu að þessari skýrslu og unnu að henni í mikilli sátt og samlyndi. Fullyrt er að það sé í fyrsta sinn sem fjárlaganefnd skilar skýrslu um ríkisreikning.

Mig langar að fara hér örstutt yfir það sem kemur fram í þessari skýrslu. (Utanrrh.: Um utanríkismál?) Nú er ég ekki að fara að ræða Evrópusambandið, hæstv. utanríkisráðherra, en ég spái því að ekki muni líða margar vikur þangað til sú umsókn klúðrast endanlega. Ég vitna í skýrslu fjárlaganefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Fjárlaganefnd ákvað að skila Alþingi sérstakri skýrslu um ríkisreikninginn sem ekki hefur verið gert áður. Tilgangurinn með þeirri skýrslu er tvíþættur:

1. Að draga fram helstu athugasemdir Ríkisendurskoðunar á reikningi ársins 2009, álit fjárlaganefndar á þeim og gera formlegar tillögur til úrbóta.

2. Að hvetja til umræðna um eftirlit og framkvæmd fjárlaga með það að markmiði að leggja grunn að betri og agaðri stjórn ríkisfjármála en áður hefur tíðkast.“

Í þessari skýrslu er síðan mjög stór kafli um það sem kallað er markaðar tekjur og bundið eigið fé. Þar er verið að snúa af þeirri braut sem ég var að tala um og ég ætla að fá að vitna orðrétt í skýrsluna aftur, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðuneytið hefur haft þá stefnu í seinni tíð að auka ekki vægi markaðra tekna í fjármögnun á útgjaldahliðinni með það að markmiði að tryggja betur fjárstjórnarvald Alþingis, styrkja fjármálastjórn ríkisins og stemma stigu við sjálfvirkni útgjalda.“ — Það hefur verið löstur á mörgum undanförnum árum.

Ég ætla að fá að lesa eina setningu aftur:

„… að tryggja betur fjárstjórnarvald Alþingis …“

Síðan ætla ég að ljúka lestrinum áður en ég fer efnislega í umræðuna um þetta. Hér stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Fjárlaganefnd álítur að brýnt sé að hætta því ógegnsæja verklagi þar sem markaðar tekjur og meðferð þeirra, m.a. í lokafjárlögum, virðist ráða þróun stofnana fremur en ákvarðanir í fjárlögum hvers árs. Yfirsýn og stjórn á fjárreiðum ríkisins er ekki skýr hvað þetta varðar og því telur fjárlaganefnd brýnt að stigin verði ákveðin skref sem leiða til þess að allar tekjur renni í ríkissjóð og rekstrarfé allra stofnana ríkisins verði ákveðið með fjárlögum.“

Af hverju skyldi þetta vera gert, virðulegur forseti? Það er vegna þess að menn eru búnir að sjá það óréttlæti sem kemur fram í meðförum á lokafjárlögum, hvernig sumar stofnanir hafa aðgang að sértekjum eða mörkuðum tekjum en aðrar ekki.

Mig langar að nefna eitt dæmi sem gerðist á árinu 2009 og annað á árinu 2010 sem voru að sjálfsögðu miklir niðurskurðartímar. Þá var það með þeim hætti, án þess að ákvörðun lægi fyrir um það í fjárlögum Alþingis, að ein stofnun jók útgjöld sín um tæp 18% árið 2009 og um 20% árið 2010, á niðurskurðartímum. Það var ekki deilt pólitískt um þær áherslur að hlífa ætti velferðarmálum, heilsugæslunni, löggæslunni, tryggingamálum o.s.frv. Þannig að það var forgangsraðað. Ég man ekki eftir því að mikil átök yrðu um það hvernig það væri gert. Eigi að síður gerðist þetta vegna þess ógegnsæis og þeirrar lélegu fjármálastjórnunar að hafa mörkuðu tekjurnar og sértekjurnar fyrir utan sviga. Það er líka mismunandi farið með þær gagnvart einstaka stofnunum. Það er mjög mikið óréttlæti og það er eitt af því sem verið er að gera.

Hver er staðan á þessu máli núna? Nú er staðan þannig að í fjármálaráðuneytinu er verið að vinna frumvarp í samstarfi og í samvinnu við hv. fjárlaganefnd. Fulltrúar ráðuneytisins hafa komið á fund fjárlaganefndar, gert grein fyrir því hvernig þeir hugsi sér að vinna vinnuna og með hvaða hætti eigi að leggja frumvarpið fram. Og hv. fjárlaganefnd hefur verið sammála þeirri nálgun, þ.e. að tekjurnar fari í ríkissjóð og síðan verði hver einasta stofnun sem er hjá ríkinu á fjárlögum þannig að við getum átt efnislega umræðu um það hverju þingið vill á hverjum tíma ráðstafa til einstakra stofnana þegar fjárlög eru samþykkt, en ekki með afgreiðslu lokafjárlaga tveimur árum síðar. Það er það sem verið er að gera í dag. Ég efast ekki um það eina sekúndu að enginn ágreiningur hefði orðið um það á milli pólitískra fylkinga hér á þingi um að þessari ákveðnu stofnun bæri að skera niður eins og öðrum, þá væri frekar hægt að nýta fjármunina í aðra hluti; og þetta eru engar smátölur, þetta eru nokkur hundruð milljónir.

Við skulum líka átta okkur á því hvað mörkuðu tekjurnar eru stór hluti af fjárlögum. Þær eru nefnilega í kringum 100 milljarðar. Hundrað milljarðar eru á floti inni í kerfinu og allt verður það ógegnsærra en hvað varðar þær stofnanir sem fá bein fjárframlög. Síðan væri hægt að halda langa ræðu um það sem fylgir því, sem eru sértekjur. Það er nú einn angi sem verður að skera af.

Ég þykist vita að það sé ekki stefna núverandi stjórnvalda að segja upp starfsfólki á heilbrigðisstofnunum og eins og komið hefur fram í skýringum á þinginu og í þingskjölum eru konur um 90% þeirra sem verið er að reka. Það er ekki stefnan, um það er enginn ágreiningur, en það er hins vegar það sem verið er að gera, það er hinn blákaldi veruleiki. Þetta eru algjörlega óþolandi vinnubrögð.

Ég sé hér hv. þm. Skúla Helgason sem er formaður þessarar nefndar. Þegar hann kom hér upp um daginn … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti vill vekja athygli á því að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson er formaður hv. allsherjar- og menntamálanefndar.) (Gripið fram í: … verið að breyta því.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að leiðrétta mig en ég sé að hér er hv. þm. Skúli Helgason sem situr væntanlega í nefndinni, hann situr hér til hliðar og er að hlusta á þessa ræðu. Hann kom einmitt inn á það um daginn — ég komst ekki að til að taka undir það með honum — þessa breytingu varðandi starfsnám og bóknám. Hann tók undir það sem kom fram á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins, að við þyrftum að ræða það hver þörfin væri fyrir markaðinn svo að hægt væri að byggja upp þær greinar sem við viljum gera miðað við þær aðstæður sem hér eru. Það væri kannski eðlilegra að menn væru að ræða það hér. Niðurskurðurinn í menntamálunum er á þann veg að hagkvæmara er fyrir framhaldsskóla sem bjóða bæði upp á bóknám og verknám að skera niður í verknámi en halda bóknámi, vegna þess að reiknilíkanið er ekki rétt. Við erum því að stefna í þveröfuga átt miðað við það sem viljinn stendur til að gera.

Ég er mjög ósáttur við þessa stefnubreytingu. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það sem kemur fram í frumvarpinu þar sem sagt er að hæstv. menntamálaráðherra hafi sent stjórn Ríkisútvarpsins bréf 4. febrúar 2011 þar sem gerðar voru athugasemdir við að ákveðin skilyrði hefðu ekki verið uppfyllt á viðeigandi hátt. Mig langar að kalla eftir frekari skýringum á því hvað í þessu fólst, hvað verið var að gera athugasemdir við af hálfu hæstv. ráðherra.

Ég hef því miður ekki tíma til að fara yfir einstaka liði í umsögn fjárlagaskrifstofu Alþingis sem ég ætla mér að gera. Ég mun (Forseti hringir.) gera það í seinni ræðu minni hér á eftir.