140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

auðlegðarskattur, eignarnám og skattlagning.

483. mál
[16:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um auðlegðarskatt, eignarnám og skattlagningu var dreift í lok janúar á þessu ári og fagna ég því að nú er runnin upp sú stund að þessari fyrirspurn verði svarað. Eins og ég nefndi er ég meðal annars að spyrjast fyrir um auðlegðarskattinn sem er eignarskattur og hefur þá sérstöðu að hann er ekki lagður á tekjur þannig að viðkomandi einstaklingur þarf að greiða hvort sem hann er með tekjur eða ekki. Fyrstu spurningarnar eru þessar:

1. Hefur ráðherra látið kanna mörk auðlegðarskatts og eignarnáms?

2. Er það eignarnám eða getur það talist eðlileg skattlagning að 2% auðlegðarskattur í þrjú ár er tæp 6% skattlagning á eignir?

Ég hef tekið þetta mál upp áður og spurði hæstv. fjármálaráðherra á sínum tíma um það. Þá kom í ljós í svari frá honum að 387 fjölskyldur voru árið 2009 með heildartekjur upp á minna en 10 millj. kr. Það er fyrst og fremst eldra fólk sem greiðir þetta, en þrátt fyrir að þetta sé skattur á eignir er einum eignum haldið fyrir utan, lífeyrisréttindum. Það er óheppilegt þar sem væntanlega hefðu ráðherrar í ríkisstjórn greitt þennan auðlegðarskatt ef hann hefði náð yfir allt saman.

Þetta er fyrst og fremst fólk sem hefur ekki haft hefðbundin lífeyrisréttindi sem greiðir þennan skatt.

Svo er næsta spurning, virðulegi forseti:

3. Hefur ráðherra hugleitt hversu stór hluti skattstofns við skattlagningu fjáreignatekna er verðleiðrétting, þ.e. verðbætur á verðtryggðum innlánsreikningum og gengismun á innlendum gjaldeyrisreikningum, og vextir?

Það er spurt um þetta vegna þess að eftir að skatturinn hækkaði svona erum við að sjá skuggalega skatta. Ef við bara miðum við 8% verðbólgu og 1% raunvexti eru skattarnir um 168%. Ef við bætum við 2% auðlegðarskatti er þetta komið upp í tæplega 370%.

4. Mun ráðherra halda fast við álagningu afturvirkra skatta við innlausn spariskírteina ríkissjóðs þegar vextir ávinnast þegar fjáreignaskattar eru 10%, 15% 18% og 20%, en spariskírteinin eru innleyst þegar fjáreignatekjuskattur er 20%?

Spurningin er einfaldlega þessi: Er ekki um afturvirkni að ræða þegar fólk er skattlagt með þessari háu skattprósentu en það eru búnir að vera miklu lægri skattar á þeim tíma sem það hefur átt þessi spariskírteini?

Síðan er spurt út í ákvæði stjórnarskrárinnar sem vísar í afturvirka skattlagningu og eignarréttarákvæðið. (Forseti hringir.) Spurningin er hvort ekki eigi að virða stjórnarskrána hvað þetta varðar. Það ætti að vera einfalt að svara því, en miðað við þær forsendur sem eru til staðar, miðað við þá stöðu sem er uppi, er eðlilegt (Forseti hringir.) að spyrja að þessu.