140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir andsvarið.

Ég tek undir það sem þingmaðurinn bendir hér á að þetta eiga að sjálfsögðu að vera undantekningartilvik en hins vegar hafa komið upp slíkar aðstæður, sérstaklega hvað varðar lækna, og svo tilvik sem ég þekki til varðandi lyfjafræðinga þar sem gekk mjög erfiðlega að manna stöður. Þannig að þó þetta gæti verið tímabundin úrlausn held ég að það sé mikilvægt að hafa þennan möguleika af því að maður fann svo sterklega fyrir því hve þetta ástand orsakaði mikið öryggisleysi í viðkomandi samfélagi. Þess vegna var það niðurstaða mín að leggja til þessa breytingartillögu.

Ég fagna því að þetta verði eitt af því sem verður skoðað við endurskoðun á lyfjalögum. Í framhaldinu, af því að það var upplýst innan nefndarinnar að heilmikil þróun væri í gangi hvað varðar möguleika á að nota fjarvinnslutæknina, að þó að það væru almennir starfsmenn sem afhentu lyfin þá gæti lyfjafræðingur haft yfirumsjón með því starfi. Ég held að það sé líka eitthvað sem við munum horfa fram á á næstum árum hvað varðar læknavísindin almennt að tæknin er ótrúlega hröð. Ég þekki til dæmis hvað varðar röntgenmyndatökur á Selfossi að greiningarvinnan fer meira og minna fram á höfuðborgarsvæðinu þó að myndirnar séu teknar sem næst þar sem sjúklingarnir búa. Þannig að þetta er bara mjög spennandi.

Ég held samt sem áður að það sé mjög mikilvægt að hafa þessar undanþáguheimildir í lögunum þannig að heilbrigðisyfirvöld geti gripið til þeirra ef nauðsyn krefur.