140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[22:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég gat því miður ekki skilið ræðu hv. þingmanns öðruvísi en að honum fyndist ekki ástæða til að greiða fyrir frumvarpinu sem tekið var fram fyrir aðrar tillögur starfshópsins vegna þess að ekki væri verið að koma hér með frumvarp með öllum tillögunum.

Hafi ég misskilið hv. þingmann gleður það mig og ég fagna því að hv. þingmaður muni vilja greiða fyrir þessu frumvarpi sem er aðeins fyrsta skrefið. Það getur verið að hv. þingmanni finnist þetta vera lítið skref en það skiptir mjög miklu máli fyrir þá sem þarna um ræðir. Það er mikilvægt að koma frumvarpinu í gegn og að hv. þingmenn flýti fyrir því að það komist sem fyrst til nefndar svo hægt sé að afgreiða það og gera það að lögum. Í haust koma hins vegar allar heildartillögurnar og þá getum við tekið umræðuna sem hv. þingmaður kallar eftir.