140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Manni verður oft orðs vant í þinginu við ýmsar ræður þingmanna. Ég velti því hins vegar fyrir mér og vildi gjarnan fá álit hv. þm. Árna Johnsens á því, þar sem hann þekkir vel til bæði í Færeyjum og Grænlandi og kom inn á það í ræðu sinni, en okkur var sagt að ástæðan fyrir því að nauðsynlegt væri að stofna atvinnuvegaráðuneyti væri m.a. sú að það væri gert að fyrirmynd þjóða á Norðurlöndum.

Í þeirri skýrslu sem við fengum loksins að sjá, við þingmenn sem ekki sitjum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, eru fylgigögn og viðbótarrökstuðningur fyrir breytingunni. Þar kemur í ljós að í öllum þessum löndum, þ.e. Noregi, Danmörku og Svíþjóð, aðskilja menn einmitt ráðuneyti atvinnuveganna. Þessar þjóðir hafa sem sagt sjávarútveg og landbúnað sér, í Noregi er sérstakt landbúnaðarráðuneyti og auk þess sjávarútvegsráðuneyti og í Danmörku hafa menn öll matvæli sjávarútvegs og landbúnaðar og önnur matvæli undir sama hatti en hafa síðan aðra hluti í því sem þeir kalla atvinnuvegaráðuneyti, og eru jafnvel með hluta af fjármálamarkaðnum þar undir. Umhverfis- og auðlindaráðuneytin eru með þeim hætti að þar virðist vera skýrari afmörkun um að umhverfismálin og mengunin séu í umhverfisráðuneytinu og auðlindirnar gjarnan í öðrum ráðuneytum.

Ég vil spyrja hv. þingmann, vegna sérþekkingar hans á Grænlandi og Færeyjum, um það sem ég spurði við fyrri umræðu, hvort menn hefðu litið til fyrirmynda í löndum sem við ættum kannski að bera okkur meira saman við, þ.e. Færeyjar og Grænland. Telur þingmaðurinn líklegt að menn í þessum þjóðríkjum, þegar þau efnast og stækka, stofni ráðuneyti (Forseti hringir.) sem taka ekki mið af auðlindum og atvinnusköpun í þeim löndum? (Forseti hringir.) Ég vil biðja hv. þingmann að bera það saman við Ísland og (Forseti hringir.) síðan Norðurlöndin.