140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

lengd þingfundar.

[11:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði áðan, við eðlilegar aðstæður koma þingmál fram haust, vetur og vor. Nú háttar hins vegar svo til, alveg eins og í fyrra og í hittiðfyrra, að á síðasta degi var dembt inn stórum og smáum málum, 50–60 málum. Það er ástæðan fyrir þeim átakafasa sem er greinilega hafinn í þinginu. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um að það er ekki gott en þá verður hæstv. ríkisstjórn að líta í eigin barm og átta sig á sinni miklu ábyrgð í þessum efnum.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir er enn á ferðinni. Hv. þingmaður talar um gíslatöku á þessu litla máli. Ég fagnaði þessu máli, boðaði það hins vegar að það væri mikilvægt að gera á því ákveðnar breytingar. Því var ekki illa tekið. Ég flutti 15 mínútna ræðu. Ætlun mín var að halda fimm mínútna ræðu til viðbótar eins og þingsköp heimiluðu, en hins vegar er þetta ekki nema lítill angi af húshitunarvandanum sem við erum að glíma við (Forseti hringir.) og hæstv. ríkisstjórn hefur tillögur um lausn á því máli en hefur haldið þeim tillögum í gíslingu. (Forseti hringir.) Það er gíslatakan í þessu máli.