140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Það skal upplýst, vegna þess að þingmaðurinn fór yfir að svo margar stjórnsýslunefndir væru starfandi, að ég er nýbúin að fá svör frá öllum ráðuneytum hvað margar nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og starfshópar eru starfandi eftir að þessi ríkisstjórn tók við eftir kosningarnar 2009. Þær eru 318, hvorki meira né minna og kostnaðurinn við nefndarlaun þessara nefnda, ráða, verkefnisstjórna og starfshópa er 600 milljónir frá síðustu kosningum, 600 milljónir. En ég hef sagt það áður að vinstri menn kunna svo sannarlega að eyða skattfé landsmanna út í loftið.

Varðandi hins vegar það hvað áætlað er að þetta kosti var ég líka búin að fá svar við því hvað síðustu sameiningar ráðuneyta kostuðu. Það var kvartmilljarður, tæpar 250 milljónir sem það eitt kostaði. Við erum því að horfa upp á 1.000 milljónir sem nefndirnar hafa kostað ríkissjóð, síðasta sameining ráðuneyta og svo fyrirhuguð sameining sem er boðuð hér og það er bara húsnæðiskostnaður.