140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Við ræðum hér enn á ný tillögur hæstv. forsætisráðherra um breytingar á Stjórnarráðinu. Það er að verða árviss viðburður, og gerist jafnvel oftar en einu sinni á ári, að Alþingi Íslendinga þarf að taka fyrir breytingar á Stjórnarráði hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Eins og einhver benti á er þetta líklega sjötta þingmálið á þessu kjörtímabili sem snýr að breytingum á Stjórnarráðinu. Verði sami háttur á megum við kannski búast við einum tveimur til fjórum málum í viðbót á þessu kjörtímabili, því að svo virðist vera að þegar upp koma vandamál séu þau leyst með því að gera breytingar á Stjórnarráðinu.

Í upphafi tel ég mikilvægt að skoða sögu þessa máls. Það hefur legið ljóst fyrir að allt frá fyrsta degi hefur hæstv. forsætisráðherra lagt á það gríðarlega áherslu að vera í samfelldum breytingum á Stjórnarráðinu. Fyrstu frumvörpin litu dagsins ljós á fyrsta ári þessa kjörtímabils en þá strax ákvað þingið að taka þau mál upp. Þá var því haldið fram af mörgum hv. stjórnarliðum að ekki þætti eðlilegt að vera að krukka í tillögur um breytingar á Stjórnarráðinu, sameiningu ráðuneyta og verkefnaflutning á milli ráðuneyta en engu að síður greip þingið þá strax inn í og ákvað að gera breytingar á frumvörpum sem komu frá hæstv. ríkisstjórn. Það sneri að stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvegaráðuneytis sem fól í sér að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Þingið tók þessar breytingar út og sýndi þar með að það hefði mikinn vilja til að hafa áhrif á það hvernig skipan ráðuneyta væri háttað og hvaða verkefni heyra undir hvert og eitt ráðuneyti.

Ríkisstjórnin lét ekki þar við sitja þrátt fyrir mikla andstöðu við þetta, bæði hér á þingi og hjá flestum þeim sem um málið fjölluðu, heldur kom hæstv. forsætisráðherra með breytingar á lögum um Stjórnarráðið sjálft sem gerði að verkum að almennt þyrfti ekki að leggja það fyrir þingið hvar verkefnin væru vistuð, í hvaða ráðuneytum, hvaða ráðuneyti væru starfrækt og annað því um líkt, heldur gæti forsætisráðherra eftir eigin hentistefnu breytt þessu eins og þurfa þætti. Þingið ákvað hins vegar enn á ný að grípa inn í frumvarp hæstv. forsætisráðherra og setja það inn að til þess að gera breytingar á Stjórnarráðinu, breytingar á ráðuneytaskipan og öðru því um líku, yrði að koma fram þingsályktunartillaga um málið. Hæstv. forsætisráðherra var gríðarlega ósáttur við þetta og margir stjórnarliðar en það er einmitt þess vegna sem við ræðum þetta mál hér í dag. Það er vegna þess að þingið hefur á öllum stigum þessa máls sýnt að það hefur virkilegan áhuga á því eða vilja til þess að hafa áhrif á það hvernig skipan Stjórnarráðsins er háttað. Ég held að það sé, frú forseti, sér í lagi mikilvægt þegar við horfum upp á ríkisstjórn eins og þá sem hér situr sem virðist hafa það eitt að markmiði að breyta alltaf Stjórnarráðinu þegar illa gengur. Við horfum upp á það að ákveðnar ríkisstofnanir hafa kannski heyrt undir þrjú ráðuneyti það sem af er þessu kjörtímabili.

Sú þingsályktunartillaga sem við ræðum hér er engin undantekning þegar kemur að vinnubrögðum. Hæstv. forsætisráðherra sagði í morgun að alvanalegt væri að þingið, þegar það væri að fjalla um einstök mál, afgreiddi þau á færibandi síðustu vikurnar fyrir þinglok. Það kann að vera að þetta sé alvanalegt og hafi verið það í gegnum árin og þann tíma sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafa setið á þingi, 25–30 ár. En það er engu að síður svo að við síðustu alþingiskosningar var rík krafa um að menn breyttu vinnubrögðum og meðal annars því sem sneri að þessari svokölluðu færibandaafgreiðslu, sem er í því fólgin að ráðuneytin skila frumvörpum seint inn til þingsins og þinginu er gert að afgreiða þau á síðustu dögum fyrir sumarhlé ár hvert án þess að þau fari til umsagnar, án þess að þau fái eðlilega umræðu; og síðan eru þau keyrð í gegn í skjóli náttmyrkurs.

Frú forseti. Þessi vinnubrögð eru ekki líðandi. Það einkennir þessa þingsályktunartillögu að slík vinnubrögð voru einmitt viðhöfð við meðferð hennar. Ég á ekki fast sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég var þar hins vegar í afleysingum í þrjá daga og náði allri málsmeðferð þessa máls. Frú forseti, málsmeðferð hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar stóð í þrjá sólarhringa í þessu máli. Þeir sem þekkja til hvernig þingmál eru yfirleitt unnin vita að þau eru unnin á þann veg að mælt er fyrir þeim í fyrri eða 1. umr., þau fara til nefndar, síðan fara þau út til umsagnar, til kynningar á netinu. Yfirleitt eru gefnar tvær vikur til umsagnar þannig að allir þeir aðilar sem hafa einhverjar athugasemdir við viðkomandi þingmál, hvort sem það eru einstaklingar, félagasamtök, sveitarfélög, fyrirtæki o.fl., geti veitt málinu umsögn og sagt skoðun sína á því. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ákvað hins vegar að senda þetta mál ekki út til umsagnar heldur klára það á tveimur og hálfum sólarhring.

Frú forseti. Þetta eru auðvitað ekki boðleg vinnubrögð og sérstaklega í ljósi þeirrar gagnrýni sem kom fram við fyrri umr. um málið. Þar kom fram gagnrýni þingmanna úr öllum flokkum og meðal annars stjórnarliða og fyrrverandi ráðherra, hv. þm. Jóns Bjarnasonar og hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Ekkert var gert með þá gagnrýni, málið var ekki sent út til umsagnar og vinnubrögð í kringum málið eru ekki til fyrirmyndar, sér í lagi í ljósi þess að ein röksemd hæstv. forsætisráðherra fyrir málinu er sú að hugmyndin sé að bæta vinnubrögð, gera störf Alþingis markvissari o.s.frv.

Frú forseti. Eitt af því sem var gagnrýnt í ræðum við fyrri umræðu málsins var það að þessar tillögur mundu auka enn á völd embættismanna og draga úr ábyrgð og yfirsýn þeirra sem pólitíska ábyrgð bera hverju sinni. Þrátt fyrir að hinu gagnstæða hafi verið haldið fram, í greinargerð með þingsályktunartillögunni, voru þau sjónarmið verulega dregin í efa af mjög mörgum þingmönnum við fyrri umræðu. Við meðferð nefndarinnar kom þetta fram. Haldnir voru tveir fundir þar sem tekið var á móti gestum með ólík sjónarmið og þar kom þessi gagnrýni fram. Fram komu ýmsar spurningar við þingsályktunartillöguna um sameiningu ráðuneyta, um það hvar einstakar stofnanir ættu að vera vistaðar, en engri af þeim spurningum var svarað og engin þeirra stofnana, fyrirtækja eða einstaklinga sem þá komu fyrir nefndina hafði tækifæri til að skila inn skriflegri umsögn. Það eru því einungis orð þeirra nefndarmanna sem þar sátu sem liggja til grundvallar þeirri gríðarlegu gagnrýni sem var á málið.

Það er alveg ljóst að meiri hluti þeirra gesta sem komu fyrir nefndina milli fyrri og síðari umræðu hafði verulegar athugasemdir við þetta mál. Margir þeirra sem hafa til að mynda verið fremur jákvæðir gagnvart stofnun atvinnuvegaráðuneytis sögðu á nefndarfundum að þeir hefðu á sínum tíma verið fremur jákvæðir fyrir þessu máli en hefðu, eftir því sem tíminn hefði liðið, orðið skeptískari á málið og væru mótfallnir því í dag. Þar má til að mynda nefna Samtök iðnaðarins. Allt hefði þetta hins vegar komið fram ef málið hefði fengið að fara út til skriflegrar umsagnar.

Frú forseti. Ekki er annað hægt að segja, þegar við, þingmenn úr öllum flokkum, erum að reyna að breyta vinnubrögðum á Alþingi, en að það verður að stoppa það sem hér tíðkast og hæstv. forsætisráðherra keyrir áfram með hnefann á lofti, þ.e. að Alþingi sé stimpilpúði fyrir framkvæmdarvaldið. Það gerist ekki öðruvísi en að við sem hér erum segjum hingað og ekki lengra og krefjumst þess að mál, hvort sem er mál eins og þetta hér eða önnur, fái þinglega meðferð. Það getur ekki verið eðlilegt að þingmál komi hér inn á síðustu metrunum í tugatali og ætlast sé til þess að þau séu afgreidd á nokkrum vikum og að fram að þeim tíma komi nær engin mál frá ríkisstjórninni, eins og til að mynda í hv. atvinnuveganefnd þar sem ekkert mál var til umfjöllunar lengi vel þennan vetur. Það eru þessi vinnubrögð sem þarf að breyta.

Frú forseti. Það er athyglisvert, þegar við skoðum þá gagnrýni sem hefur komið fram á þetta mál, til að mynda stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvegaráðuneytis, að allir sem starfa innan greina sjávarútvegs og landbúnaðar eru mótfallnir þeirri breytingu sem þar er lögð fram. Þeim fer fjölgandi sem starfa að öðru leyti innan atvinnulífsins, eins og til að mynda Samtök iðnaðarins, sem eru mjög skeptísk á þetta mál. Það er ótrúlegt, frú forseti, að með markvissum hætti sé þeim sjónarmiðum haldið frá við vinnslu þessa máls.

Það er annað sem vekur athygli. Við horfum upp á það að ríkisstjórnin hefur ekki meiri hluta innan sinna eigin raða fyrir þessu máli. Þetta er mál sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kemur fram með án þess að það hafi verið unnið í sátt heima fyrir, í herbúðum ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin kemur fram algjörlega sundurlaus í málinu og kvartar síðan yfir því að stjórnarandstaðan sé að þvælast fyrir.

Mig langar, með leyfi frú forseta, að vitna í ræður tveggja hv. þingmanna stjórnarliðsins og fyrrverandi hæstv. ráðherra. Það eru hv. þingmenn Jón Bjarnason og Árni Páll Árnason. Við fyrri umræðu um þetta mál rakti hv. þm. Jón Bjarnason þetta gríðarlega vel og sagði meðal annars að mikil andstaða hefði verið við að stofna atvinnuvegaráðuneytið annars vegar og umhverfis- og auðlindaráðuneytið hins vegar. Hann rakti það meðal annars að flokksráð Vinstri grænna hefði hafnað þeim breytingum. Hv. þingmaður las upp úr ályktun flokksráðs Vinstri grænna og sagði, með leyfi frú forseta:

„Á næstu árum munu grunnatvinnuvegir þjóðarinnar, svo sem landbúnaður og sjávarútvegur, skipta verulegu máli við endurmótun íslensks atvinnulífs.“

Svo segir hér aftur, með leyfi forseta:

„Varhugavert er að draga úr vægi ofangreindra atvinnugreina innan stjórnsýslunnar á sama tíma og þjóðin þarf öðru fremur að treysta á þessa málaflokka í þeim hremmingum sem nú ganga yfir.“

Frú forseti. Þessi hv. þingmaður lýsti vinnubrögðum við þetta mál, þeirri andstöðu sem við það er.

Annar hv. þingmaður, Árni Páll Árnason, einnig stjórnarliði og fyrrverandi hæstv. ráðherra, sagði um málið við fyrri umræðu, með leyfi forseta:

„Þetta er stórt mál sem liggur hér undir og tími naumt skammtaður og ég mun því reyna að einskorða mig við aðalatriði málsins. Ég vil fyrst segja að almennt séð er auðvitað ekki góður bragur á því að hringlað sé með verkaskiptingu í Stjórnarráðinu nema að vel athuguðu máli. … Núna er tæpt ár til þingkosninga og þær breytingar sem hér er rætt um eiga að taka gildi hálfu ári fyrir þingkosningar.“

Þegar verið er að fjalla um þær breytingar sem snúa að fjármálaráðuneytinu og efnahags- og viðskiptaráðuneytinu segir hv. þingmaður:

„Hins vegar er verið að snúa algerlega frá þeirri stefnu sem gefin var upp í stjórnarsáttmála og fyrri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.“

Hv. þingmaður segir síðar að hann efist um að ríkisstjórnin hafi umboð til að leggja þetta þingmál fram eins og það lítur út í dag. Hann segir, með leyfi forseta:

„Það er ómögulegt að róta svo í grundvallarforsendum hagstjórnar í landinu eins og hér er gert ráð fyrir án nokkurrar undangenginnar greiningar.“

Frú forseti. Þarna liggur alveg ljóst fyrir að ríkisstjórnin hefur ekki einu sinni tekið tillit til sjónarmiða þeirra tveggja þingmanna og fyrrum hæstv. ráðherra sem störfuðu innan þeirra málaflokka sem þessi mál heyra undir. Maður hefði haldið og maður hefði talið að ríkisstjórnin hefði lagt á það áherslu, í ljósi þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram á málið innan eigin raða, að málið hefði verið unnið betur í nefnd, að málið hefði verið skoðað gaumgæfilega, að þær athugasemdir sem komið hafa fram, meðal annars frá liðsmönnum ríkisstjórnarinnar, yrðu teknar til greina. En nei, sú var ekki raunin.

Þá veltir maður því fyrir sér, frú forseti: Hefur ríkisstjórnin meiri hluta fyrir þessu máli? Hún hefur það ekki innan sinna eigin raða og þá veltir maður því óneitanlega fyrir sér hvort það geti verið að málum sé þannig háttað að ríkisstjórnin sé jafnvel komin með einhverja stuðningsmenn við málið úr öðrum flokkum. Jú, það er ein hreyfing hér á þinginu sem virðist vera gengin til liðs við ríkisstjórnina og það er þingflokkur Hreyfingarinnar sem leitast nú við að vera á öllum þingmálum frá ríkisstjórninni og segir síðan á tyllidögum að hún sé ekki hluti af stjórnarliðinu. En ef hv. þingmenn eru ekki hluti af stjórnarliðinu af hverju eru þeir á öllum tillögum ríkisstjórnarinnar? Og ef þingmenn Hreyfingarinnar eru ekki hluti af stjórnarliðinu af hverju gat hv. þm. Þór Saari ekki svarað því skýrt við fyrri umræðu að hann styddi ekki ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur?

Frú forseti. Það er orðið sérstakt þegar hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsætisráðherra eru algjörlega ófær um að semja við eigin liðsmenn um svo stórt mál eins og breytingar á Stjórnarráðinu eru. Og það eru ýmsar spurningar sem ekki hefur verið svarað. Frú forseti, því hefur til dæmis ekki verið svarað með óyggjandi hætti hvaða stofnanir munu heyra undir einstök nýskipuð ráðuneyti. Ýjað hefur verið að því að Hafrannsóknastofnun muni, í það minnsta fyrst um sinn, vera á sama stað, það er ýjað að þessu og talað í kringum hlutina. En af hverju er ekki hægt að svara því hvernig þessum málum verður háttað, hvaða stofnanir munu heyra undir ákveðin ráðuneyti? Að þessu var spurt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Gestir, margir hverjir, spurðu að þessu og hafa gert það í skeytum til þingmanna o.fl. Hvernig er það til að mynda með Hafrannsóknastofnun, hvar mun hún verða vistuð til framtíðar? Þessum spurningum hefur ekki verið svarað. Það hefur verið ýjað að því en ekkert skýrt komið fram enda kemur ekkert fram um það í þessu þingmáli hvar þessar stofnanir verða vistaðar.

Frú forseti. Þegar horft er á öll vinnubrögðin í kringum þetta er ekki annað hægt en að vera mjög gagnrýninn á þau vegna þess að allt sem flokkað hefur verið undir samráð af hálfu hæstv. ríkisstjórnar er ekki í daglegu tali flokkað sem samráð. Þetta eru einhliða tilkynningar um hvernig málum skuli háttað og allir þeir aðilar sem komu fyrir hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lýstu því yfir að þeir hefðu haft alvarlegar athugasemdir við öll frumvörp hæstv. ríkisstjórnar þegar kemur að stjórnarráðsbreytingum. Jú, boðað hafi verið til einhverra funda í aðdraganda þessarar þingsályktunartillögu en hins vegar væri staðreyndin sú að á engan hátt væri hægt að flokka það sem samráð því að fremur hefði verið um að ræða sýndarfundi sem hefðu verið settir upp í þeim tilgangi að geta sagt að fundað hafi verið um viðkomandi málefni.

Frú forseti. Það var annað sem vakti sérstaka athygli við þessa stuttu vinnslu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það var sú staðreynd að þar var kominn ráðgjafi ríkisstjórnarinnar, sérlegur ráðgjafi í sameiningu ráðuneyta, sem hét Sigurður Helgason. Það kom ekkert fram í vinnslu nefndarinnar hver þessi ráðgjafi væri, það kom ekkert fram hver bakgrunnur hans væri, það kom ekkert fram nákvæmlega í hverju vinna hans væri fólgin eða kostnaðurinn við hana; og þannig mætti áfram telja. Það var einhver samantekt sem þessi ágæti ráðgjafi hæstv. forsætisráðherra var með, svona broskallamyndir. Ég má til með að sýna þetta, með leyfi frú forseta. Búið er að stilla upp ýmsum þáttum sem snúa að sameiningu ráðuneyta, áhrifum þeirra, og svo eru dregnir upp fýlukallar og broskallar eftir atvikum, eftir því hvort það telst jákvætt eða neikvætt og enginn frekari rökstuðningur til staðar.

Frú forseti. Það á við um þetta mál í heild sinni að vinnubrögðin eru ekki boðleg. Maður á ekki orð til að lýsa því hvernig hæstv. ríkisstjórn, í hverju málinu á fætur öðru, (Forseti hringir.) verður uppvís að ófaglegum vinnubrögðum og leggur fram illa unnin mál sem engin samstaða er um í ríkisstjórnarflokkunum.