140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[22:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og fagna því sem hann segir að mikill samningsvilji sé hjá þingflokki Samfylkingarinnar. Auðvitað er það þannig að þegar verið er að semja um mál verðum við að beita okkur, eins og við erum reyndar alltaf að gera í öllum málum, ákveðinni sjálfsgagnrýni og vera ekki að deila um það hvar hæsti þröskuldurinn er. Ég held að þetta sé atriði sem við verðum að fara yfir í sameiningu og reyna þá að leggja misklíð til hliðar, því að það er skoðun mín eða mín upplifun er kannski réttara að segja, að miðað við þá uppákomu sem varð fyrr í dag í kringum atkvæðagreiðsluna um lengd þingfundar og síðan aftur núna er í rauninni ekki til þess fallin að liðka fyrir samningum.

Ég sagði líka að ég væri mjög hugsi yfir því af hverju við værum að búa okkur til þetta starfsumhverfi sem er jú það sem við erum að gera okkur sjálf. Ég ætla ekki að undanskilja mig neitt í því eða neinn annan. Ég er þess vegna mjög hugsi yfir því þegar upp koma þær aðstæður og þeir hlutir sem við viljum breyta en getum ekki breytt, þá áttar maður sig á því í raun og veru hvernig þetta er, af hverju við erum í þessum farvegi.

Ekki er um það deilt að skynsamlegt sé að nálgast þetta verkefni faglega, og ég hef ekki gert athugasemdir við það. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið allra að vilja auðvitað styrkja og gera stjórnsýsluna betri og faglegri. Okkur getur hins vegar greint á um hvernig við gerum það. Ég tel að hægt sé að ræða marga fleti á málunum og mín persónulega skoðun er í þá veru, hvort sem við mundum ráða inn í Stjórnarráðið eða vera með þessa aðstoðarráðherra, sem eru reyndar núna. Það er margt, margt fleira sem við getum byggt upp og náð samkomulagi um hvernig við viljum hafa til framtíðar litið en vera ekki að eyða öllum þessum fjármunum í skiptingar, jafnvel oft á kjörtímabili. Ég er ekki sáttur við það.