140. löggjafarþing — 94. fundur,  3. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[23:10]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er athyglisverður punktur og maður getur hugsað þetta aðeins lengra. Tökum sem dæmi hvalveiðar en hvalveiðar eða nýting hvala fellur undir auðlindamál hjá okkur Íslendingum en eru umhverfismál hjá Evrópusambandinu. Innan Evrópusambandsins er til dæmis algjörlega bannað að veiða hvali út frá umhverfislegum sjónarmiðum sem ganga framar þeim auðlindasjónarmiðum sem við Íslendingar fylgjum.

Annað dæmi sem virðist vera í uppsiglingu eða á hraðri leið í gegnum þingið, getum við sagt, er friðun alls kyns svartfugla. Það virðist vera sem svo að vissar tegundir svartfugla eigi að friða á Íslandi. Það virðast ekki vera haldgóð rök fyrir því nema þau að slíkt bann við veiðum er í gildi innan Evrópusambandsins og þar flokkast þetta sem umhverfismál meðan á Íslandi er þetta auðlindamál. Ég verð því að taka undir með hv. þingmanni að ég hef verulegar áhyggjur af því að auðlindamálin og umhverfismálin séu sett á sama stað, vegna þess að það er augljóst að öfgafólk, eins og við höfum séð núna við stjórnvölinn síðustu þrjú árin, á mjög auðvelt með að kippa auðlindum úr þeim flokki að vera auðlindanýtingarmál yfir í umhverfismál. Það þýðir einfaldlega bara skert lífskjör fyrir okkur Íslendinga í framtíðinni. Í öllu þessu er ég auðvitað að tala um að nýta auðlindir á sjálfbæran hátt, ég er ekki að tala um rányrkju eða neitt svoleiðis. Ég vil nýta þær á skynsamlegan, sjálfbæran hátt, öllum Íslendingum til hagsbóta, ekki bara Íslendingum framtíðarinnar til hagsbóta.