140. löggjafarþing — 94. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[00:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér sitja þingmenn uppi með þrjóskan hæstv. forsætisráðherra sem hafnaði sáttatilboði Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í dag um að hvíla þetta mál og taka af dagskrá þingsins og koma 15 brýnum málum á dagskrá. Þegar ég tala um brýn mál, frú forseti, á ég við mál sem snúa að skuldsettum heimilum og uppbyggingu atvinnulífs. (Gripið fram í: Og köldum svæðum.) Stjórnarandstaðan bauð þetta í dag og samkvæmt mínum heimildum tóku flestir þingflokksformenn þessu erindi vel, en þá steytti hæstv. forsætisráðherra hnefann eina ferðina enn og sagði að þessu yrði ekki hnikað. Næstkomandi mánudag, þriðjudag og miðvikudag eru nefndadagar. Það stefnir í að nefndirnar hafi ekkert að gera á þessum auglýstu nefndadögum vegna þess að ríkisstjórnin sjálf hefur ekki (Forseti hringir.) hugsun á því að koma málum til nefnda (Forseti hringir.) og taka í útrétta sáttarhönd.