140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

upprunaábyrgð á raforku.

728. mál
[13:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kaus að koma í andsvar við hv. þingmann vegna þess að hann varpar hér fram spurningu, frekar en fara í sérstaka ræðu um það sem hv. þingmaður fjallaði um. Þetta gengur út á að Landsnet gefi út græn kort til að staðfesta uppruna orkunnar, þ.e. að hún sé endurnýjanleg. Síðan geta aðilar sem nýta orku sem ekki er endurnýjanleg keypt þessi grænu kort. Með því styrkja þeir stöðu sína, þeir geta sagt: Já, við nýtum orku sem ekki er endurnýjanleg, en við leggjum okkar af mörkum til að styrkja fyrirtæki sem framleiða endurnýjanlega orku, við gerum það með því að kaupa þessi grænu kort.

Þetta hefur ekkert með sæstrenginn að gera. Þetta eru viðskipti sem geta farið fram. Það stendur á því hjá okkur að innleiða þessa nýju tilskipun í lög. Þetta gengur út á að þeir sem nýta sér orku sem ekki er endurnýjanleg geta sagt sem svo: Við nýtum óendurnýjanlega orku en til að leggja því lið að fyrirtæki sem framleiða endurnýjanlega orku geti gert enn betur og vaxið og framleitt meiri orku, kaupum við þessi grænu kort.