140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

umgjörð ríkisfjármála.

[13:44]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Þeir lærdómar sem við eigum að hafa tileinkað okkur af atburðum undanfarinna ára og jafnvel áratuga eiga að hjálpa okkur í því að leysa þau vandamál sem við erum að fást við í dag. Fyrir utan auðvitað rangar ákvarðanir sem voru teknar hér í ríkisfjármálum lengi vel og í löngum bunum með alls kyns slæmum afleiðingum, held ég að við getum verið sammála um eitt, það er að agaleysið í ríkisfjármálum var algjört, regluverkið var meira og minna í molum, við höfðum engan ramma til að halda okkur innan við og þingmenn virtust oft og tíðum ekki bera mikla ábyrgð á því sem þeir lögðu til í gerð fjárlaga, svo dæmi séu nefnd.

Útgjöld og eftirlit með útgjöldum og framúrkeyrslu á ríkisútgjöldum miðað við fjárlög þarf náttúrlega ekki að fara yfir hér, það er oft búið að ræða það úr þessum ræðustól hvernig þeim var háttað lengi vel og til viðbótar þegar á reyndi hafi tekjustofnum ekki verið sinnt og þeir ófærir um að takast á við þau verkefni sem síðan var ætlast til af þeim.

Í grófum dráttum á þetta að hafa kennt okkur að við eigum að undirbúa betur það sem við erum að gera. Við eigum að hafa framtíðarsýn og þá er ég að tala um framtíðarsýn, ekki til næsta árs, það er ekki framtíðarsýn. Framtíðarsýn í fjármálum ríkisins er ekki til eins árs eða fimm ára heldur framtíðarsýn þar sem við höfum sett okkur markmið sem við ætlum okkur að halda, skýr markmið sem við leyfum okkur ekki og megum ekki og ætlum okkur ekki að rjúfa eða brjóta. Aðeins með slíkri framtíðarsýn og slíkum ramma sem við þurfum að setja okkur, inn í framtíðina, munum við ná þeim tökum á ríkisfjármálum sem okkur er nauðsynlegt að gera. Ég held að við séum á þeirri leið í dag. Það þokast kannski hægt að margra mati en við erum á þeirri leið og ég held að það sé einbeittur (Forseti hringir.) vilji bæði í fjárlaganefnd og í þinginu til að halda áfram á þeirri leið.