140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:04]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir andsvarið. Hann getur talað af ákveðinni reynslu í þessu sambandi sem ráðherra í ríkisstjórninni til síðustu áramóta og var undir töluverðri pressu og gagnrýni af hálfu ýmissa félaga sinna í ríkisstjórninni fyrir að vera ekki nógu lipur í aðlöguninni gagnvart Evrópusambandinu. Það er ágætt að það komi fram skýrt í þessari umræðu að tengslin eru fyrir hendi þótt ég efist ekki um að markmiðin á bak við þær breytingar á ráðuneytum sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir séu fleiri en bara þau sem tengjast Evrópusambandsaðildinni. En það kom fram í þinginu fyrr í vor í einhverjum skjölum frá Evrópusambandinu að því hafi verið lofað að ljúka þessu máli fyrir vorið. Það kann að skýra að einhverju leyti þá tímapressu sem sett er á málið og skýrir af hverju klára á þetta á síðasta ári kjörtímabilsins en er ekki beðið með það þangað til ný ríkisstjórn tekur við völdum sem fær þá tækifæri til að skipuleggja sig frá grunni. Á það hefur verið bent í umræðunni að jafnvel þótt menn fallist á að það geti verið rök af og til fyrir því að gera breytingar á fyrirkomulagi ráðuneyta í Stjórnarráðinu er þó engum til hagsbóta að standa í stöðugu breytingaferli og breyta þessu í ár og einhverju öðru á næsta ári og breyta svo til baka á þarnæsta ári. Það er engum til gagns að þetta sé í tómu hreinu rugli, leyfi ég mér að segja, hæstv. forseti, það bætir hvorki stjórnsýsluna né sparar nokkurn kostnað.