140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:59]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu sem setti málið allt í samhengi.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um er efnislegs eðlis, það er hugmyndin að búa til eitt auðlinda- og umhverfisráðuneyti. Ég veit að hv. þingmaður er mikill (BJJ: Umhverfissinni.) auðlindanýtingarmaður, hann þekkir vel til til dæmis í sveitum landsins og í (BJJ: Sjávarútveginum.) sjávarútveginum og (BJJ: Orkuiðnaðinum.) orkuiðnaði og honum er annt um atvinnuuppbyggingu og atvinnulíf.

Umhverfismál og auðlindanýting kallast að vissu leyti á en í einhverjum skilningi geta þau sjónarmið sem þar ráða verið andstæð. Þar detta mér fyrst í hug hvalveiðar, að þær eru umhverfismál innan Evrópusambandsins. Hvalveiðar eru bannaðar á þeim forsendum. Á Íslandi eru þær auðlindamál og þar er hugað að nýtingunni. Getur verið að þessi sameining í umhverfis- og auðlindaráðuneyti geti leitt það af sér að auðveldara verði að flokka hvalveiðar sem umhverfismál þegar gengið verður í ESB og hvalveiðar bannaðar? Ég varpa því fram til hv. þingmanns vegna þess að ég veit að hann er bæði Evrópumaður og auðlindanýtingarmaður þannig að mér þætti vænt um að (Forseti hringir.) fá svar við þessum spurningum.