140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni kærlega fyrir þetta andsvar. Ef ég sæi inn fyrir höfuðleður hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar væri ég líklega búin að leysa hér landsmálin. Ég tel að þingmaðurinn hafi verið að vísa í þann viðsnúning sem hann fór með flokk sinn í gegnum og hann þverskallast við og neitar að um aðlögun að Evrópusambandinu sé að ræða.

Það frumvarp sem er til umræðu og þingsályktunartillagan sem er boðuð á eftir þessu máli sanna það, það þarf ekki fleiri vitnanna við, að hér er um beina aðlögun að Evrópusambandinu að ræða. Hér eru Íslendingar í gegnum tillögu frá ríkisstjórninni, sem hér liggur fyrir, að taka á móti 5 þús. millj. ísl. kr. til að aðlaga stjórnsýsluna að því að ganga í Evrópusambandið. Þetta eru staðreyndir og það er orðið tímabært að þeir sem eru ekki enn vaknaðir upp af þessum vonda draumi átti sig á því. Ég vísa í ráðherraábyrgð hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem situr ekki í salnum, ráðherraábyrgð hans að vera með blekkingar í þinginu og telja mönnum trú um að ekki sé um aðlögun að ræða.

Þetta er líka sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að Evrópusambandið hamast hér á landi bæði í gegnum sendiráð sitt og Evrópustofu við að kynna Evrópusambandið við litlar undirtektir. Hér var haldin heil gleðivika í síðustu viku, gleðivika Evrópustofu, þvílíkt og annað eins bull. Harpa var leigð til að reyna að heilaþvo Íslendinga.

Málið með landsmenn hér ólíkt kannski öðrum þjóðum er að við erum mjög vel upplýst, við fylgjumst með. Íslendingar gera sér grein fyrir því hvernig ástandið er í Evrópusambandinu og á evrusvæðinu og það sjá allir nema ríkisstjórnin að þetta er vitavonlaus vegferð og var frá upphafi.