140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég met þessa þætti með sama hætti og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Ég held að það sé alveg rétt metið hjá honum að þær merkjasendingar sem okkur hafa borist frá Evrópusambandinu undanfarna mánuði eru allt annað en jákvæðar. Þær eru frekar skilaboð um að okkur sé hollast að sitja og standa eins og hið háa Evrópusamband segir. Þetta eru nánast tilskipanir til okkar, ekki tilskipanir í lögfræðilegri merkingu Evrópuréttarins heldur samkvæmt almennum málskilningi.

Það er auðvitað, eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson bendir á, mjög einkennilegt að á sama tíma og við fáum slík skilaboð frá Evrópusambandinu séum við á hnjánum, liggur mér við að segja, að betla styrki í einhver verkefni sem okkur finnst mikilvæg. Ég ætla ekkert að deila um það eða meta hvernig þau verkefni eru, ég geri ráð fyrir því án þess að þekkja það að þetta séu allt merkileg og góð verkefni. En mér finnst vondur bragur á því að vera í umsóknarferli um einhverja styrki frá sambandinu á meðan það sendir okkur mjög fjandsamleg skilaboð.

Hins vegar vil ég taka fram að stóra spurningin í þessu máli er auðvitað sú, eins og við hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vitum, hvort við eigum að halda áfram í aðildar- eða aðlögunarferlinu. Ég hygg að við deilum þeirri skoðun að við séum þegar búin að eyða allt of miklum tíma, orku og fyrirhöfn í aðildarferlið og ættum að hætta því hið fyrsta.