140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum vissulega sammála um stóru atriðin í þessu máli og ég get tekið undir fjölmargt af því sem hv. þingmaður fór yfir í ræðu sinni. Framkvæmdin á þessu öllu er auðvitað mikið álitamál, svo ekki sé meira sagt.

Er hv. þingmaður tilbúinn að ganga svo langt að segja að það sé beinlínis niðurlægjandi fyrir Íslendinga að biðja um eða þiggja þessa styrki til að aðlaga Ísland að Evrópusambandinu á sama tíma og Evrópusambandið kemur fram eins og það hefur gert? Og er hv. þingmaður sammála mér um að jafnvel þótt menn vildu ganga þarna inn, vildu ná góðum samningum við Evrópusambandið á jafnræðisgrundvelli, (Forseti hringir.) fari illa á því að gefa eftir með þessum hætti og senda þau skilaboð sem í þessu eru fólgin?