140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:48]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann ræddi dálítið um það ferli sem við erum í og kallaði eftir að leitað væri eftir meiri sátt um það. Við erum í miðjum klíðum í ferli eins og margoft hefur verið rakið.

Mér þótti hv. þingmaður gera óþarflega lítið úr þeim spurningum sem fram eru settar, tilurð þeirra og af hverju akkúrat þessar spurningar eru fram settar. Ég vek athygli á því að í þingsályktun frá 22. febrúar sl. var stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd falið að koma með tillögu um það sem hér liggur fyrir, helstu álitaefni og tillögur stjórnlagaráðs. Ég er ekki með þetta fyrir framan mig til að segja til um hvernig þetta er nákvæmlega orðað. Í því sambandi leitaði nefndin að sjálfsögðu í ferlið, þ.e. í þjóðfundinn, stjórnlaganefndina og stjórnlagaráðið. Allt frá því á þjóðfundi hefur legið alveg skýrt fyrir hverju menn vildu helst breyta í núgildandi stjórnarskrá. Í tillögum stjórnlagaráðs er auðvitað miklu fleiru breytt, en þetta hefur verið alveg skýrt, menn hafa kallað eftir því að sett yrði inn ákvæði um auðlindir í þjóðareign. Það er eitt af hinum stóru álitaefnum. Vilja menn það eða vilja menn það ekki?

Það hefur verið kallað eftir því að tiltekinn hluti þjóðarinnar gæti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál. Vilja menn það eða vilja menn það ekki? Það hefur verið kallað eftir þessu og það rekur sig í gegnum allt ferlið hvort menn vilja hafa persónukjör í kosningum til þings og hvort menn vilja jafnan atkvæðisrétt eins og hér er lagt til. Ég verð að segja að það veldur mér vonbrigðum að hv. þingmaður skuli ekki átta sig á því hvers vegna akkúrat þessar spurningar urðu fyrir valinu því að (Forseti hringir.) það liggur svo berlega fyrir í gegnum allt ferlið.