140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir ræðuna. Hann fór um víðan völl varðandi þessa þjóðaratkvæðagreiðsluheimild sem er alltaf rétt og gott að fara yfir, sérstaklega þar sem þetta mál snýr að henni. En Alþingi setti lög 2010 um þjóðaratkvæðagreiðslur því að ekki höfðu verið til lög um þær áður.

Varðandi þá þingsályktunartillögu sem er til umræðu hef ég lagt fram breytingartillögu um að samhliða þessari atkvæðagreiðslu fái þjóðin að segja álit sitt á því hvort draga eigi umsóknina að Evrópusambandinu til baka eða ekki til að ríkisstjórnin sjái hver þjóðarviljinn er í því máli. Mig langar að spyrja þingmanninn að því hvort honum lítist ekki vel á það, verði samþykkt að kjósa um þær tillögur sem ríkisstjórnin setur fram í þessari þingsályktunartillögu, að landsmenn fái að segja álit sitt varðandi aðlögunarferlið að ESB.

Það gerðist nokkuð merkilegt í dag í þinginu og svo á fundi Samtaka atvinnulífsins í morgun. Í þinginu lýsti hv. þm. Helgi Hjörvar því yfir að honum þætti orðið tímabært að skoða betur hvort lýðræðið ætti ekki að ná fram að ganga með beinum kosningum og var þar jafnframt að vísa í að tímabært væri orðið að setja ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo lét hv. þm. Árni Páll Árnason hafa það eftir sér í kvöldfréttum eftir fund með Samtökum atvinnulífsins í morgun að hann væri að komast á þá skoðun að það væri orðið tímabært að þjóðin fengi að segja álit sitt á ESB-málinu. Er þá ekki upplagt að hafa þessar atkvæðagreiðslur saman?