140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það liggur alveg fyrir að sá sem hér stendur styður það að þjóðin fái að segja álit sitt á aðildarumsóknarferlinu eða aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu, hvað sem við viljum kalla það. Það var ein af þeim tillögum sem við lögðum fram í þinginu áður en farið var af stað og hefði auðvitað betur verið gert. Það liggur fyrir og ég er sammála hv. þingmanni um það.

Við þurfum að velta fyrir okkur — ég náði ekki að fara yfir það í ræðu minni áðan en mun gera það seinna — ef við ætlum að auka þetta beina lýðræði sem ég var að tala um þá þurfum við að búa til reglur í kringum það þannig að það kosti ekki alltaf 250 milljónir að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við þurfum að einfalda þetta með einhverjum hætti. Við þurfum að hafa alveg skýrar reglur um hvenær megi hefja undirskriftasöfnun og með hvaða hætti hún eigi að fara fram. Auðvitað er eðlilegast að hún verði rafræn til að byrja með. Það getur vel verið að einhverjir gallar verði á því en það þurfa að vera skýrar reglur um hvernig ferlið á að vera til að ekki verði alltaf sama umræðan, t.d. ef einhver skrifar sig sem Andrés önd eða Denna dæmalausa þá snýst allt um það.

Ég er hins vegar dálítið hugsi yfir þessu, þó að ég muni styðja tillögu hv. þingmanns, því að þegar við erum að tala um breytingar á sjálfri stjórnarskránni finnst mér að við eigum ekki að hafa svona spurningar þegar litið er til framtíðar eða hafa atkvæðagreiðslu um þær samhliða alþingiskosningum, forsetakosningum eða einhverju svoleiðis. Það missir marks að mínu mati.

Því miður erum við ekki komin lengra í beinu lýðræði en þetta. Þetta er flókið ferli og það er alltaf verið að hugsa um kostnaðinn sem er auðvitað umhugsunarefni en aðalatriðið er að við setjum þetta í annan farveg. Við getum ekki aukið beint lýðræðið með því að fara alltaf í 300 millj. kr. kosningar. Þess vegna er mikilvægt að við smíðum regluverkið í kringum þann þátt líka.