140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og ég vil gera hv. þm. Magnúsi Norðdahl gagntilboð vegna orða hans. Hann túlkaði orð hv. þingmanns þannig að þetta væri svo lítil tillaga og lagði til að við slitum umræðunni. Þessi tillaga er ekki lítil en hún er umdeild. Það getur vel verið að hv. þingmanni finnist hún mikilvæg en hún er ekki brýn. Þess vegna vil ég gera hv. þingmanni gagntilboð um að við leggjum tillöguna til hliðar vegna þess að hún er umdeild. Ég væri tilbúin að fara á fund með virðulegum forseta og þingflokksformönnum og breyta dagskrá á stundinni, vera hér fram á nótt að ræða brýn mál sem liggja fyrir og snerta hag heimilanna og fyrirtækjanna í landinu en leggja þess í stað þau mál til hliðar sem sundrung (Forseti hringir.) og deilur eru um þannig að við getum einbeitt okkur að því sem skiptir máli.