140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Hv. þm. Birgir Ármannsson á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eins og ég og við höfum verið nokkuð einhuga um að þar hefur miklum tíma verið sóað. Tími þingmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur farið í að hlusta á gesti, ekkert hefur verið unnið með það plagg sem kom frá stjórnlagaráði og kannski ekki nema von því að eins og hv. þingmaður fór yfir er ekki enn búið að leggja það fram í frumvarpsformi á Alþingi, hvernig sem annars stendur á því.

Jú, jú, margir gestir hafa komið á fund nefndarinnar með mismunandi mikla gagnrýni. Þarna hafa komið lagaprófessorar, sérfræðingar í auðlinda- og umhverfisrétti o.s.frv. og meira að segja hefur það gerst að þeir lögfræðingar sem voru stjórnlagaráði til aðstoðar hafa komið fyrir nefndina og sagt: Jú, ég var þarna til ráðgjafar en ekki var farið eftir mínum ráðum varðandi textann í skýrslunni. Þarna sjáum við hve málið er byggt á veikum grunni að því leyti að stjórnlagaráð skyldi ekki hafa tekið tillit til þeirra breytinga sem þó voru lagðar til. En vinnubrögð þess meiri hluta sem nú situr eru jú skrýtin.

Varðandi spurningu þingmannsins, hvernig meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar brást við öðrum spurningum sem leggja átti fyrir nefndina og hvernig þessar spurningar voru valdar, er hægt að segja það beint út að því var hafnað að ræða það eitthvað frekar og nú er þetta komið fram í þessu formi. En að sjálfsögðu er það réttur þingmanna að leggja fram breytingartillögur við frumvörp og þingsályktunartillögur þó að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir ætli nú að taka þann rétt af mér í öðru máli sem fjallar um rannsóknir á bönkunum. Það sýnir að því var ekki tekið vel í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd (Forseti hringir.) og sýnir líka þann mikla fjölda sem kominn er fram af breytingartillögum núna.