140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skemmst er frá því að segja að öllum vangaveltum þingmannsins og spurningum er hægt að svara með neii. Það hefur til dæmis ekki verið tekið efnislega fyrir í nefndinni hvernig á að framkvæma þetta persónukjör og það sama má segja um allar spurningarnar.

Þingmaðurinn spurði hvort þjóðaratkvæðagreiðsla komi til með að aðstoða okkur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd við að gera drög að nýrri stjórnarskrá og svarið við þeirri spurningu er einfaldlega nei. Þingmenn eiga nefnilega að breyta stjórnarskránni og spurningarnar eru svo almennt orðaðar að niðurstaðan kemur ekki til með að styðja við þetta mál í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Í fyrsta lagi er þjóðaratkvæðagreiðslan ráðgefandi þannig að þingmenn eru ekki bundnir af henni. Það er því raunverulega alveg sama hvað kemur út úr henni, meiri hlutinn er óbundinn af því.

Í öðru lagi er ekkert ákvæði um það hve margir þurfa að taka þátt í kosningunni. Ef kosningaþátttaka verður mjög dræm, ef einungis 10% af kosningarbærum mönnum taka til dæmis þátt í þeim, gerir það málið enn veikara. Eins og þessu er stillt upp, að fara með þessar spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu, er þetta bara hrein peningaeyðsla. Það er verið að blekkja fólk og umræðan og meðvirknin með málinu í samfélaginu er slík að fólk heldur að það sé að fara að kjósa um stjórnarskrá. Áður en málinu er hleypt áfram þarf að upplýsa fólk um að svo er ekki. Ég undrast mjög fjölmiðla, að þeir skuli ekki koma fram og segja hvernig málið er vaxið, (Forseti hringir.) því að það virðist ekki ná eyrum allra að verið sé að fara fram með blekkingar.