140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski ég byrji á því síðasta sem hv. þingmaður nefndi og vitnaði til tillögu stjórnlagaráðs. Meiningin með hugsuninni er auðvitað góð hjá því ágæta fólki sem þar er að skila tillögum en síðan þarf að færa þær í þann búning að við köllum ekki yfir okkur dómsmál í tuga- eða hundraðatali. Einstaklingur gæti vitnað í það að samkvæmt orðanna hljóðan í stjórnarskránni eigi hann að hafa jafnt aðgengi, t.d. að heilbrigðisþjónustunni, en hann telji sig ekki hafa það. Hann gæti því farið í mál af því að það stangaðist á við stjórnarskrárákvæði. Það þarf að setja þetta í búning áður en þetta er samþykkt, en hugsunin er vissulega góð.

Hv. þingmaður hélt áfram að spyrja um jafnan atkvæðisrétt, jöfn búsetuskilyrði og fleira. Ég veit það ekki, ég held í raun og veru að ef farið verði í að jafna atkvæðisréttinn, og það eru góð markmið út af fyrir sig, er skoðun mín sú að þá yrði bara að gera það og landið yrði að einu kjördæmi. Ég sé í raun og veru ekki í fljótu bragði hvernig menn ætla að jafna það eins og kjördæmin eru núna. Eins og við þekkjum er kjördæmið sem ég og hv. þingmaður komum úr ekkert smáflæmi og það er alveg fullt verk fyrir menn að sinna því þó að þar séu níu þingmenn í dag. Þeim fækkar um einn í næstu kosningum en ef þar væru kannski tveir, þrír eða fjórir þingmenn þá held ég að menn yrðu að stíga skrefið til fulls og segja: Ef við ætlum að jafna atkvæðisréttinn þá gerum við landið að einu kjördæmi.

Ég held að það séu umræður sem við verðum að taka og hugsa þær út frá því þannig að það séu ekki einn, tveir eða þrír þingmenn sem eiga að sinna alveg heilu kjördæmi heldur að taka bara skrefið og segja: Landið er þá bara eitt kjördæmi. Það yrði að mínu mati fljótt á litið eðlilegustu viðbrögðin.