140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:11]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Ein breytingartillaga hefur töluvert verið í umræðunni í dag hjá mörgum þingmönnum sem hv. þingmaður er 1. flutningsmaður að ásamt félaga sínum hv. þm. Ólöfu Nordal. Sú breytingartillaga hljóðar svo:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem heimilað er að framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana?“

Þetta hefur verið í umræðunni, meðal annars í tengslum við EES-samninginn. Það kom fram hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að hennar skoðun væri fremur sú að eðlilegt væri að setja í stjórnarskrá heimild til þess valdaframsals sem nauðsynlegt er til að uppfylla EES-samninginn og að þetta þyrfti að skoða ítarlega. Þetta hefur meðal annars komið fram hjá hæstv. utanríkisráðherra, kom fram í skýrslu sem hann flutti þinginu nýlega o.s.frv.

Hv. þingmaður hefur lagt til að þessari spurningu verði bætt á spurningavagn ríkisstjórnarinnar. Mig langar að spyrja hann að því hver skoðun hans sé á þessu máli. Er hann fylgjandi því, í ljósi allra staðreynda, að við heimilum þetta valdaframsal í stjórnarskrá eða eigum við að halda þessu eins og það er og reyna frekar að leita einhverra leiða til að koma í veg fyrir það valdaframsal sem þegar hefur orðið vegna EES-samningsins?

Mig langaði að fá fram persónulega skoðun hv. þingmanns á þessu, sérstaklega í ljósi þess að hann er 1. flutningsmaður breytingartillögu sem felur í sér að spyrja þjóðina þessarar spurningar.