140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:39]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ef mig misminnir ekki er hluti af rökstuðningnum fyrir þessum tillögum sá og vísað hefur verið til þess í umræðu af formælendum þeirrar breytingartillögu sem liggur fyrir af hálfu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að sá spurningavagn sem er í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar sé meira spurning um hugmyndafræði og þess vegna séu þær breytingartillögur frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni komnar fram.

Það er ein breytingartillaga á þskj. 1377 frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem lýtur að mikilvægi þess að ákvæði stjórnarskrárinnar séu framkvæmanleg. Í okkar spjalli um þetta mál var nefnt ákvæði sem lýtur að því að öllum skuli tryggð sanngjörn laun. Þá er rétt að spyrja með hvaða hætti slíkt eigi að framkvæma og hvernig slíkt eigi að tryggja. Það er langur vegur frá að það sé einfalt.

Það kann að valda okkur nokkrum vandræðum við umræður um málið, að fjalla efnislega um það, að svo virðist sem fólk treysti á það að sú umræða verði ekki tekin fyrir á nýju þingi þannig að við stöndum þá frammi fyrir því að sú ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla sem svo er kölluð, sem ég vil fremur kalla skoðanakönnun í afstöðu til þessa, verði ekki fyrr en í október. Ég hlýt því að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi trú á því að þátttaka í slíkri ráðgjöf verði ýkjamikil í ljósi þess að fyrir liggur að skipuð hefur verið sérfræðinganefnd sem ætlað er að breyta í rauninni þeirri tillögu sem skila átti til forseta Alþingis 29. júní á síðasta ári.