140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á, það er svo sem ekkert nýtt að það skorti á þessa umræðu. Ég held að ástandið hvað þetta varðar sé sérstaklega slæmt þessa dagana vegna þess byltingaranda eða tíðaranda sem hefur verið óhóflega ríkjandi þar sem vegið er í raun að öllum grunnstoðum samfélagsins á einn eða annan hátt. Kirkjan hefur í gegnum tíðina vissulega verið ein af grunnstoðum samfélagsins og ekki farið varhluta af þeim byltingaranda sem hefur verið ríkjandi á Íslandi síðustu missiri. En slíkur tíðarandi hefur hins vegar því miður, held ég að megi segja, aldrei gefist vel fyrir þjóðir. Stundum hafa þurft að vera byltingar til að færa hlutina til betri vegar en tíðarandi sem byggist á því að rífa niður þær grunnstoðir sem hafa verið byggðar upp, sterka innviði samfélags, hefur alltaf verið skaðlegur.