140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það var merkileg bókun sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir lagði fram í utanríkismálanefnd í morgun og meiri hluti varð um. Rétt er að minnast þess að hæstv. utanríkisráðherra hefur ævinlega haldið því fram að hann haldi sig við meirihlutaskoðun eða það plagg sem kom fram frá meiri hluta utanríkismálanefndar og hann hlýtur þá að gera það við þetta tilefni eins og öll önnur nema hann hafi í frammíkalli áðan verið að afsala sér ráðherradómi til hv. þm. Þórs Saaris.

Það kom líka fram í þessari áhugaverðu bókun hjá hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur að öll athygli og orka í samfélaginu hafi farið í þetta mál og það hafi þvælst fyrir og tafið ýmis önnur mál og það er svo rétt. Það hefur margítrekað komið fram. Á atvinnuveganefndarfundi í morgun kom það meðal annars fram að harka ESA í ýmsum málum er snerta íslenska hagsmuni sé vegna aðildarviðræðnanna. Við erum í afar vondri stöðu með afar vont mál sem enginn meiri hluti er fyrir, hvorki hjá þjóðinni né í þinginu. Það hefur verið mín skoðun lengi að aðildarviðræðurnar við ESB séu sérstaklega óheppilegar á þessum tíma í kjölfarið á því að við erum að berjast við að komast út úr afleiðingum fjármálahruns og kreppu. Ég tek því undir þá bókun sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir lagði fram í morgun í utanríkismálanefnd og legg til að sem fyrst verði kosið um framhald aðildarviðræðnanna.

Það er líka merkilegt, frú forseti, að hlusta á lýðræðisást þeirra sem hér koma upp úr röðum stjórnarliða og þeirra sem hafa átt viðræður við ríkisvaldið, og á ég þar við hv. þm. Þór Saari. Þegar fjallað er um einstakar þjóðaratkvæðagreiðslur þá virðist það vera að sum mál megi fara í þjóðaratkvæðagreiðslu en önnur ekki. Stundum þarf gagngerar upplýsingar og öll spil eiga að liggja á borðinu en annað á hreinlega að fara algerlega óundirbúið til þjóðarinnar til að spyrja um. Hún er mjög merkileg sú lýðræðisást sem hér kemur fram.