140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:23]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Það hefur verið unnin gagnmerk málefnaleg samstöðuvinna utan þings að breytingartillögum á stjórnarskránni. Við þekkjum það ferli. En ríkisstjórn og Alþingi hafa ekki borið gæfu til að leita þeirrar samstöðu sem nauðsynleg er til að þær nái fram að ganga, að það verði ekki til þess að eftir næstu kosningar verði öllu snúið á hvolf, að þær verði einnota. Það harma ég.

Ég geri líka athugasemd við orðalag tillagnanna, að það verði lagt til grundvallar frumvarpi. Ég skil þetta auðvitað þannig að þingið geti í kjölfar frumvarpsins og í meðförum þingsins breytt því frumvarpi sem verður lagt fram á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Ég segi já með áskilnaði um það og minni á að stjórnlaganefnd gerði tvær tillögur, jafnvel þrjár, um hverja grein, tvær ef ég man rétt. En auðvitað mun þingið hafa fullan rétt að stjórnarskránni (Forseti hringir.) til að breyta þessum tillögum og þessu frumvarpi og þjóðin á síðan lokaorð um þær.