140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur fyrir ræðuna. Það var tvennt sem ég vildi spyrja hana aðeins betur út í. Það kom að vísu að einhverju leyti fram hjá hv. þingmanni en mér finnst ekki hafa verið varpað nægilegu ljósi á þá tvo þætti.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að rammasamningurinn hefði verið undirritaður síðasta sumar, gerður af ríkisstjórn Íslands og fulltrúum Evrópusambandsins, en síðan hafi þetta verið hulið talsverðri þoku og þingið hafði engar upplýsingar um þetta, ekki einu sinni þegar fjárlagagerðin fór fram og ekki þegar fjárlög voru samþykkt rétt fyrir jólin þar sem nokkur verkefni voru samþykkt með þeim fyrirvara að fyrir þeim næðist samkomulag.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort sú umræða sem við nú eigum um þingsályktunartillöguna hefði ekki í raun átt að koma fram fyrst og þá væntanlega síðastliðið vor áður en ríkisstjórnin fór af stað að gera rammasamning. Ég hef lagt þann skilning í þessa þingsályktunartillögu að hún sé heimild til ríkisstjórnarinnar til að gera rammasamning. Hefði það ekki verið eðlilegasti framgangsmátinn að byrja á því að fjalla um þessa þingsályktunartillögu? Síðan hefði ríkisstjórnin — ef þingsályktunartillagan hefði verið samþykkt, sem ég veit auðvitað ekkert hvort af verður, mér finnst það satt að segja ólíklegt — getað gert rammasamning og í kjölfarið á því hefði komið það frumvarp sem við höfum reyndar rætt nokkuð, en búið er að breyta dagskránni eins og fram kom fyrr í dag.

Hefði ekki verið eðlilegra verklag og framgangsmáti að fjalla um þingsályktunartillöguna fyrst áður en menn skrifuðu upp á rammasamkomulagið?