140. löggjafarþing — 111. fundur,  2. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar þessa spurningu sem hv. þingmaður hefur spurt ýmsa fyrr í kvöld þá get ég ekki svarað henni. Ég get ekki svarað því hér, standandi á fótunum eins og maður segir, hver talan á að vera. (Gripið fram í: Af hverju ekki?) Við erum að tala um löggjöf sem á að gilda til framtíðar. (Gripið fram í.) Hún byggir ekki á því að setja upp puttann og segja: Ja, núna er þetta einhvern veginn svona, þá búum við til skattareglu sem skilar okkur þessari upphæð í skatt.

Við segjum ekki: Hvað ætlum við ná í í skatt? og sníða síðan skattaregluna í kringum það. Við reynum einhvern veginn að nálgast hana frá almennum forsendum og búa til skattareglu út frá því. (Gripið fram í.) Ég velti fyrir mér í þessu sambandi, ég tek alveg undir með formanni Sjálfstæðisflokksins og varaformanni, hv. þingmönnum Bjarna Benediktssyni og Ólöfu Nordal, að það geta mjög vel verið forsendur til þess að hækka veiðigjald frá því sem nú er. (Gripið fram í: Nú.) En ég ætla ekki að svara því í kvöld hver upphæðin á að vera, hv. þingmaður getur ekki ætlast til þess að ég svari því vegna þess að til þess þurfum við að þekkja forsendurnar miklu betur. Við þurfum til dæmis að horfa á það hvort hið stórskaðlega frumvarp um stjórn fiskveiða, sem er í höndunum á hv. þm. Kristjáni Möller og félögum hans í atvinnuveganefnd, nær fram að ganga eða ekki. Það skiptir verulegu máli. Ef við mundum koma því frumvarpi út úr heiminum held ég að við hefðum miklu betri forsendur til að setjast niður og ræða um það hvernig veiðigjaldið ætti að vera.