140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

ákvörðun LÍÚ um hlé á veiðum.

[11:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka upp mál sem verið hefur til umfjöllunar undanfarna daga. Það varðar sjávarútvegsmálin og það varðar þá ákvörðun útgerðarmanna í landinu að senda flotann ekki á sjó núna eftir sjómannadagshelgina í því augnamiði, að því er best verður séð, að reyna að hafa áhrif á störf og stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég lít svo á, og er í því efni sammála því viðhorfi sem forseti Alþýðusambandsins hefur látið í ljósi í fjölmiðlum, að um sé að ræða brot á 2. tölulið 17. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, sem leggja bann við því að í pólitískum tilgangi séu stjórnvöld knúin til að grípa til aðgerða sem þeim ekki ber, eða grípa ekki til aðgerða sem þeim ber. Þetta er það sem kallað er pólitískt verkfall eða pólitískt verkbann og þessi ákvörðun útgerðarmanna getur ekki að mínu viti flokkast undir neitt annað. Ég tel að þetta sé alvarleg ákvörðun af þeirra hálfu og hljóti að koma til einhverrar skoðunar í framhaldinu.

Það er kannski enn alvarlegra í þessu samhengi að útgerðarmenn vísuðu kjaradeilu sinni við sjómenn til ríkissáttasemjara fyrir nokkru og kjaradeilan er þar af leiðandi hjá ríkissáttasemjara. Aðgerðir af þessum toga eru þeim mun alvarlegri að mínu viti. Ég vil þess vegna inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort hún sé sammála því mati að um pólitískt verkbann sé að ræða sem fari í bága við lögin um stéttarfélög og vinnudeilur. Einnig vil ég inna hana eftir því hvort hún telji að sú staða að málið sé hjá ríkissáttasemjara hafi sérstaka þýðingu í þessu efni og í þriðja lagi hvernig ríkisstjórnin hyggst bregðast við þessari ákvörðun útgerðarmanna, hvort hún muni hafa eitthvert sérstakt samráð eða viðræður við útgerðarmenn eða hvort þetta kunni jafnvel að setja málið í enn frekara uppnám en orðið er.