140. löggjafarþing — 112. fundur,  4. júní 2012.

ákvörðun LÍÚ um hlé á veiðum.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að mér finnast þetta mjög óábyrgar og raunar ólíðandi aðgerðir hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, að stjórnvöld séu beitt þrýstingi undir svipu og hótunum stóru útgerðaraðilanna, með ósvífnum aðgerðum sem eru, um það er ég sammála hv. þingmanni, ólögmætar, til að knýja þau frá breytingum á lögum sem eiga að skila eðlilegum arði af auðlindum til þjóðarinnar og skapa meira jafnræði í greininni.

Ég tel líka að þessi boðaða aðgerð LÍÚ feli í sér brot á viðurkenndum samskiptareglum vinnumarkaðarins þar sem báðir aðilar hafa um áratugaskeið haldið sig frá því að beita pólitískum aðgerðum til að ná hagsmunum sínum fram. Ég spyr mig hvaða fordæmi svona ólögmætar aðgerðir geta gefið í framhaldinu. Þær fela í sér ólögmæta árás á Alþingi og löglega kjörin stjórnvöld sem hafa samkvæmt stjórnarskránni bæði rétt og skyldu til að taka ákvarðanir um nýtingu þeirra auðlinda sem eru í þjóðareign. Ég held, og af því hefur ríkisstjórnin líka áhyggjur, að aðgerðin kunni einnig að valda ýmsum hópum launafólks tjóni, sjómönnum og landverkafólki, sem útgerðin ber þá sína ábyrgð á.

Við munum fara yfir þá stöðu sem upp er komin í ríkisstjórninni en ég tel að með svona framkomu hljóti stóru útgerðaraðilarnir að ganga fullkomlega fram af stærstum hluta þjóðarinnar, að ætlast til þess að stjórnvöld, sem þegar hafa gengið eins langt eins og hægt er til sátta, láti knýja sig, undir hótunum og svipu, að ganga enn lengra til að minnka hlut þjóðarinnar í arði af auðlindinni. Það er auðvitað gersamlega óþolandi.